141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[21:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lækningatæki. Hér er á ferðinni mál sem inniheldur skattahækkanir á fjölskyldurnar í landinu sem eru dulbúnar sem þjónustugjald.

Ef við kíkjum á þau tollskrárnúmer sem um ræðir og til stendur að leggja þetta gjald á — sem við teljum að feli í sér skatt — eru þar ýmsar vörur og ýmislegt fróðlegt að finna. Þar á meðal eru sjúkrakassatöskur til skyndihjálpar, tannsnyrtiefni og tannþráð. Við erum að tala um skattahækkun á tannþráð. Við erum að tala um upplausn fyrir augnlinsur og gerviaugu, við erum að tala um smokka og aðrar getnaðarverjur, við erum að tala um ökutæki fyrir fatlaða, alls konar áhöld til lyflækninga, skurðlækninga, tannlækninga og dýralækninga. Við erum að tala um heyrnartæki. Við erum að tala um skattahækkun á dömubindi, tíðatappa, bleiur og bleiufóður.

Hvers vegna er svona gríðarleg þörf á þessu eftirliti? Það felur ekki í sér annað en að þessar vörur munu hækka í verði og þetta eru vörur sem eru til daglegra nota á flestöllum heimilum landsins.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég taldi að meiningin væri að yfirfara þá tollskrárflokka sem hér eru undir og grisja úr þessu fleira en það sem fram kom í máli framsögumanns meiri hlutans, þ.e. rakarastóla. Það var það sem ég taldi að stæði til en það hefur greinilega verið misskilningur hjá mér. Við erum því að tala um nýjan skatt á bleiur, dömubindi, tannþráð og fleiri nauðsynjavörur á hverju einasta íslensku heimili og af þessu hef ég töluverðar áhyggjur.