141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Í ljósi nefndarálits minni hluta og ræðna af þeirra hálfu tel ég nauðsynlegt að koma hingað upp og útskýra hvers vegna mikilvægt er að koma þessu eftirliti á. Nú er það þannig að auðvitað er viðhorf fólks til eftirlits mismunandi. En við höfum fengið athugasemdir frá Evrópusambandinu varðandi það að eftirliti með þessum vörum sé ábótavant hér á landi, en þær eru innan Evrópusambandsins með eftirlitsskyldu langt umfram aðrar vörur.

Þetta eftirlit felst meðal annars í því að lækningatæki sem hingað eru flutt til lands eða framleidd hér á landi eru skráð sérstaklega af hálfu Lyfjastofnunar svo að hægt sé að rekja þær komi upp einhver alvarleg tilfelli eða upp komi upplýsingar um framleiðslugalla sem getur falið í sér efni sem hafa alvarlegar afleiðingar komist það í snertingu við húð, svo sem eins og bleiur eða dömubindi, svo við tölum nú ekki um vökva sem á að fara í augun á fólki. Við erum því að bregðast við því vegna þess að eftirliti með þessum vöruflokkum hefur verið ábótavant á Íslandi. En nú á að auka rekjanleika til að tryggja öryggi þeirra sem nota þessar vörur.

Varðandi hjólastóla og slíkt er náttúrlega mjög mikilvægt að farið sé reglubundið yfir þann búnað, vélknúinn búnað eða tæki sem þurfa að vera háð eftirliti, að tryggt sé að tækin séu yfirfarin þannig að þau séu örugg og stefni ekki öryggi notenda eða sjúklinga í hættu. Ég taldi rétt að árétta þetta, frú forseti, og hef nú gjört það.