141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur kannski þróast út í pínulítið almennar umræður og spurninguna um það hvort einhverjir stjórnmálaflokkar séu á móti eðlilegu eftirliti. Ég ætla að fullyrða að svo er ekki. Því var til dæmis mjög haldið fram að sérstök stjórnmálastefna hefði haft það að markmiði að draga úr eftirliti á fjármálamarkaði hér á árum áður. Það vill nú þannig til að ég fór sérstaklega ofan í þetta mál og skoðaði afgreiðslu Alþingis á fjárframlögum til Fjármálaeftirlitsins á árunum 2006–2008. Ég velti því fyrir mér hvort þar hefði komið fram einhver pólitískur ágreiningur um fjárveitingar til þeirrar stofnunar. Þessar fjárhæðir eru ákveðnar með lögum á ári hverju og slíkt frumvarp hefur til dæmis verið til umfjöllunar hér á Alþingi fyrir næsta ár. Slík mál koma inn í þingið og menn taka efnislega afstöðu til þeirra

Ég tók eftir því að á árabilinu 2006–2008, sem eru væntanlega þau ár sem menn hafa helst verið að horfa til, 2006, 2007, 2008, var enginn pólitískur ágreiningur um slíkt. Enginn. Hann fólst helst í því að á það var bent, m.a. af fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeirri umræðu, að það skyti nokkuð skökku við hversu mjög fjármunir hefðu aukist til Fjármálaeftirlitsins á sama tíma og Samkeppniseftirlitið sæti eftir, væri einhvers konar eftirbátur Fjármálaeftirlitsins. Það var nú allur hinn pólitíski ágreiningur um þetta mál.

Þannig að ég ætla að fullyrða að í raun og veru er ekki pólitískur ágreiningur um að við þurfum að hafa tiltekið eftirlitskerfi. Spurningin sem við þurfum að svara er hins vegar þessi: Hversu langt ætlum við að ganga? Mér finnst hafa örlað á því á síðustu missirum að menn hafi einhvern veginn misst sjónar á þeim krítísku spurningum sem við þurfum að spyrja um það hversu langt við ætlum að ganga í hvers konar eftirliti og út á hvað eftirlitið eigi að ganga. Þegar við ræðum þessi mál er eðlilegt að við spyrjum: Til hvers er viðkomandi eftirlit? Er það til þess að bregðast við og reyna að verja almannahagsmuni, eða er eftirlitið farið að hafa einhvers konar sjálfstæðan tilgang? Mér finnst ekki að við getum sagt sem svo að af því að eitthvað fór úrskeiðis á Íslandi á tilteknu árabili eigum við að hafa eftirlit með öllum sköpuðum hlutum, lifandi og dauðum og öllu sem í kringum okkur er. Þegar mál af þessu taginu koma upp í viðkvæmum málaflokki hljótum við líka að spyrja slíkra spurninga.

Ég veit að þetta mál á auðvitað rætur sínar að rekja til PIP-púða málsins. Þá kom upp þetta tilvik sem við öll þekkjum. Ég ætla að fullyrða að þetta frumvarp hér þó að það hefði verið orðið að lögum hefði engu breytt um það mál. PIP-púðarnir voru fluttir inn af tilteknum innflytjendum, m.a. læknum. Þessir púðar höfðu fengið CE-merkingu sem þýddi að þeir uppfylltu staðla Evrópusambandsins. Eftirlitsstofnanir þar á bæjum, í Frakklandi í þessu tilviki, höfðu ekki staðið vel að sínu verki.

Þetta frumvarp gengur ekki út á að við förum ofan í gæði einstakra innflutningsvara, hvort sem það eru PIP-púðar, plástrar, dömubindi, skurðborð, hátæknitæki fyrir sjúkrahús eða þess háttar, það er ekkert slíkt. Þetta frumvarp gengur ekkert út á það. Það er ekki verið að koma upp einhvers konar CE-merkingarkerfi á Íslandi. Það sem hér er verið að reyna að gera og hugmyndin er sú að upplýsingar um innflytjendur og hvert þeir selji sína vöru séu skráðar. Tökum dæmi um innflytjendur á plástrum. Plástrar fást í annarri hverri eða flestum sjoppum landsins. Þær eru ekki allar skráðar inn í þetta kerfi. Það eru innflytjendurnir eða eftir atvikum væru þeir framleiðendur hér á Íslandi, framleiðendur sem við fengjum þessar upplýsingar um.

Það sem við erum meðal annars að vekja athygli á í þessu sambandi er að þetta kerfi er orðið býsna viðurhlutamikið eins og það er hugsað. Það er verið að leggja 0,75% gjald á innflutningsverð allra tækja sem kölluð eru lækningatæki. Þau eru ítarlega skilgreind að ég hygg í 1. gr. frumvarpsins og ná til býsna víðs sviðs. Síðan er lagt á 0,75% gjald af söluverðmæti slíkra tækja ef þau eru framleidd hér á Íslandi.

Það sem við gagnrýnum meðal annars er að ekki er sýnt fram á að þetta sé upphæðin sem ýmist dugi eða sé langt umfram kostnaðinn af þessu eftirliti. Við vekjum líka athygli á því að í 12. gr. gildandi laga um lækningatæki er kveðið á um að innflytjendur og framleiðendur skuli greiða þjónustugjald vegna markaðseftirlits og vegna mats á umsóknum um klínískar prófanir á lækningatækjum samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fengnum tillögum Lyfjastofnunar. Þá er miðað við að gjaldskráin taki mið af kostnaði við þjónustu. Með öðrum orðum, ramminn eða grundvöllur þessa þjónustugjalds er settur í gildandi lögum.

Þess vegna hefði ég talið miklu eðlilegra að við hefðum reynt að þróa gjaldtökuna á grundvelli þeirrar heimildar. Ég er ekki á móti því að við reynum að hafa upplýsingar um það hverjir eru innflytjendur og skylda hluti og að það sé eitthvert eftirlit með því að tækin séu ekki úr sér gengin. Það hefur líka komið fram og kom t.d. fram í velferðarnefnd að þetta eftirlit í dag fer fyrst og fremst fram inni á stofnunum sem hafa alla hagsmuni af því að þau tæki sem verið er að nota, hvort sem það eru hjólastólar, skurðborð eða flókin lækningatæki að öðru leyti, séu í lagi og brúkleg. Þannig að ég tel einfaldlega að þarna sé verið að ganga allt of langt.

Síðan er það hitt sem vekur athygli. Þegar skoðaðar eru tölur um innflutning og sölu á lækningatækjum má sjá að ríkið er kaupandi að þessum tækjum að þremur fjórðu, að 75%. Við erum því að búa til eftirlitsapparat með meira og minna ríkisstofnunum sjálfum. Þetta er tilfærsla á milli vasa sem fram fer á grundvelli skattlagningar, ekki þjónustugjalds. Það er kjarni málsins að mínu mati.

Ef ég dreg þetta aðeins saman sýnist mér málið vera þannig að við höfum, eins og stundum hefur verið orðað, seilst um hurð til lokunar, við höfum gengið of langt. Við höfum búið til of viðurhlutamikið kerfi utan um eftirlit sem ætti að vera að öllu jöfnu tiltölulega einfalt að fylgjast með. Það sem gengur í gegnum tollinn er auðvitað skráð þar með þeim hætti sem tollurinn gerir og hægt að rekja það líka. Það tók ekki langan tíma að finna út úr því t.d. hverjir fluttu inn PIP-púðana. Það blasti við. Þegar það tilvik kom upp þurfti ekki annað en fara í innflutningsskýrslur og menn fundu þær upplýsingar. Við sjáum að það eru ýmis úrræði í gildandi lögum og í því kerfi sem við höfum byggt upp af allt öðrum ástæðum í samfélaginu.

Með öðrum orðum, þetta frumvarp er örugglega flutt af mjög góðum hug. Það er flutt vegna þess að menn eru að reyna að bregðast við atviki sem kom hér upp og tröllreið allri fjölmiðlaumræðu, reyndar með mjög ósmekklegum og ómaklegum hætti gagnvart lækninum sem þar átti í hlut. Það er önnur saga. En þá bregðast menn með dálítið öfgakenndum og ómarkvissum hætti við þessu frumvarpi. Það hefur til dæmis enginn sýnt fram á það að 0,75% af innflutningsverði þessara vara sé kostnaðurinn sem eftirlitinu fylgir.

Vorum við ekki að ákveða eftir 2. umr. fjárlaga að bæta í vegna tækjakaupa Landspítalans upp á 600 millj. kr., 200 millj. kr. ef ég man rétt á Akureyri? Er hægt að sýna fram á að kostnaðurinn við að flytja tækin, eftirlitskostnaður, skráningarkostnaðurinn, nýju störfin í Reykjavík, kosti 0,75% af þessum tækjum? Ekki nokkur einasti maður. Þetta er bara skattur. Þetta er bara tekjuöflun fyrir eina stofnun í Reykjavík sem heitir Lyfjastofnun. Þetta er ekkert flóknara en það. Hún er auðvitað að reyna að vinna sín verk vel, ég geri ekki lítið úr því, en er engu að síður mikið umhugsunarefni.

Þess vegna tel ég að skynsamlegra hefði verið að hugsa þessi mál upp á nýtt og í fyrsta lagi út frá þeirri lagastoð sem þegar er í 12. gr. laga um lækningatæki. Í öðru lagi að reyna að átta sig á því hvort við þurfum svona viðurhlutamikið eftirlit sem að langmestu leyti beinist að ríkisstofnunum, og að langmestu leyti að einni stofnun sem er Landspítalinn sem er augljóslega langstærsti innflytjandinn, eðli málsins samkvæmt. Og í þriðja lagi hvort við hefðum getað reynt að búa til meira samstarf við til dæmis tollayfirvöld til að halda utan um þetta.

Þetta hefði auðvitað kostað vinnu. Stjórnvöld hefðu væntanlega verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við vegna PIP-púða málsins, sem er alveg óskylt þessu og þetta mál hefði í raun og veru ekki leyst það á nokkurn hátt. Ég undirstrika að með þessu erum við ekki að fara í einhvers konar faggildingu eða vottun á þeim tækjum sem við köllum lækningatæki, hvort sem það eru dömubindi, bleiur, plástrar, skurðborð, hátæknilækningatæki, hjólastólar eða hvað við viljum nefna í þessu sambandi. Slík vottun og faggilding hefur þegar átt sér stað vegna þess að við heimilum ekki innflutning á öðrum lækningatækjum en þeim sem bera CE-merkinguna.

Virðulegi forseti. Þetta voru þau almennu viðhorf sem mig langaði til að árétta í þessari umræðu eftir að hafa farið yfir nefndarálitið. Þetta er sú grunnhugsun sem liggur að baki nefndarálits okkar hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur.