141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[22:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál verður alltaf undarlegra því meira sem það er rætt. Ég vek athygli á því, af því að menn tala um eftirlit, sérstaklega á heilbrigðissviðinu, að ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vorum í velferðarnefnd í upphafi þessa kjörtímabils þar sem við lögðum áherslu á það þegar menn voru að sameina stofnanir, nánar tiltekið landlæknisembættið og Lýðheilsustöð, að menn gættu að veikleikanum í heilbrigðiskerfinu sem er eftirlitið. Á það var ekki hlustað. Menn geta lesið nefndarálit okkar þar sem við fórum rækilega yfir það og færðum fyrir því rök að setja þyrfti athyglina á eftirlitið.

En núverandi ríkisstjórnarflokkar höfðu ekki áhuga á því. Það er mjög sorglegt að ekki hafi verið lögð áhersla á það í þeim stofnunum sem sameinaðar voru að auka eftirlitið á heilbrigðissviðinu, sem var annars mjög nauðsynlegt. Menn náðu ekki einu sinni fram hagræðingu vegna þess að þeir vildu leigja svo dýrt húsnæði, en ég ætla ekki að fara út í það núna.

Mönnum finnst kannski allt í lagi að setja alltaf einhver gjöld á af því að tiltölulega sé lítið lagt á hvern stað og þá sé það forsvaranlegt. En margt smátt gerir eitt stórt. Þetta er bara gjald eða skattur, fyrst og fremst á íslenskar heilbrigðisstofnanir, en það mun koma einhvers staðar niður. Það mun koma niður á þessum stofnunum. Það er kaldhæðnislegt að tala annars vegar um mikilvægi þess að styrkja rekstrargrundvöll viðkomandi stofnana, hjálpa þeim til þess að kaupa tæki o.s.frv., og setja hins vegar skatta á þessar stofnanir, sérstaklega í ljósi þess að ef brjóstapúðamálið er uppspretta málsins þá breytir þetta engu um það, eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson er búinn að fara rækilega yfir.

Það er margt sem mér fannst áhugavert í upptalningunni, hvort sem það voru ökutæki fyrir fatlaða eða vatn, grisjur og bindi, nú eða smokkar. Það þýðir ekkert að flissa þegar við ræðum slíkt, virðulegi forseti, það er alvörumál. Verið hefur umræða í þinginu um að lækka virðisaukaskatt á smokka vegna þess að verðlagningin er talin vera hindrun, sérstaklega fyrir ungt fólk. Það snýr ekki bara að þungunum, það snýr líka að kynsjúkdómum og öðrum alvarlegum hlutum. Það er ekki hægt að koma hér og tala í slagorðastíl og ásaka menn um að vilja ekki neitt eftirlit o.s.frv., það eru ekki boðleg rök í umræðunni. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa nefndarálit hv. þingmanna Einars Kristins Guðfinnssonar og Unnar Brár Konráðsdóttur því að þar er rækilega farið yfir þessa hluti.

Mörg mikilvæg mál bíða afgreiðslu á hinu háa Alþingi en þetta mál þarf svo sannarlega að fara betur yfir og skoða. Það er ekki lausn að segja: Við erum búin að koma á eftirliti. Við erum búin að fjölga starfsfólki. Það snýst ekki um það. Það snýst um gæði eftirlitsins. Í áratugi hefur landlæknisembættið haft það hlutverk að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Það hefur samt sem áður ekki verið gert nógu vel, ekki hefur verið skilgreint hvar það á að liggja og menn hafa ekki fylgt því nógu vel eftir. Það eru að vísu fleiri stofnanir sem eiga að sjá um eftirlitsþáttinn og hefði verið skynsamlegt að sameina þessa þætti og gera eftirlitið skilvirkara. Talað hefur verið um það og var tilbúið frumvarp um það á sínum tíma en það varð ekki að lögum. En svo mikið vitum við að það er ekki ávísun á árangur að skattleggja og fjölga opinberum starfsmönnum.

Þetta er einhvers konar friðþægingarfrumvarp sem felur í sér aukinn kostnað sem lenda mun á sjúklingum þessa lands með einum eða öðrum hætti. Það mun lenda á ungu fólki sem þarf að kaupa sér þær vörur sem verða skattlagðar og hefur ýmsar afleiðingar í för með sér en það hefur ekkert með það mál að gera sem menn hafa nefnt sem uppsprettu þessa máls, sem er brjóstapúðamálið.

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarliðsins til að kynna sér vel þetta mál og ég er alveg sannfærður um að geri þeir það muni þeir skipta um skoðun og þá verður farið betur yfir þessi mál. Það er nægur tími til þess að gera það eftir áramótin.