141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar.

Nefndin fékk gesti á sinn fund út af málinu sem taldir eru upp í nefndaráliti auk þess sem henni bárust nokkrar umsagnir um málið.

Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að frestað verði gildistöku ákvæðis varðandi samninga sjúkratryggingastofnunar við sveitarfélög og rekstraraðila hjúkrunarheimila um tvö ár, frá 1. janúar 2013 til 1. janúar 2015, og að jafnframt verði heimild ráðherra framlengd til að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum. Lagt er til að fyrrnefndu ákvæði verði frestað þar sem nú er unnið að yfirfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga og þykir rétt að yfirfærslan eigi sér stað áður en greiðslufyrirkomulagi vegna þjónustunnar verður breytt. Hins vegar er lagt til með frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um gerð samninga þar sem kveða skal á um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, m.a. um heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins.

Fyrir nefndinni kom fram að vegna niðurskurðar síðustu ára hafi sjúkratryggingastofnun ekki verið efld með mannafla og nauðsynlegri sérþekkingu, m.a. í samningatækni, til að hún geti sinnt kaupandahlutverki sínu á viðunandi hátt. Á meðan svo er er það ekki talið forsvaranlegt að fela stofnuninni það hlutverk. Þá verður einnig að líta til þess að ákvæði 39. gr. laganna er mjög opið líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Nauðsynlegt er á meðan Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki verið efldar líkt og til stóð að ráðherra setji með reglugerð reglur um umfang og tegund þeirrar þjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands semja um.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Einnig hv. þingmenn Þuríður Backman og Árni Þór Sigurðsson, með þeim fyrirvara að þau telja að endurskoða eigi hlutverk Sjúkratrygginga Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, og hv. þm. Ólína þorvarðardóttir, með þeim fyrirvara að hún tók ekki þátt í efnislegri umfjöllun málsins í nefnd.