141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

umferðarlög.

518. mál
[23:16]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, frá umhverfis- og samgöngunefnd.

1.gr. hljóðar svo:

„1. málsl. 3. mgr. 51. gr. laganna orðast svo: Fullnaðarskírteini gildir í 15 ár.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast gildi 19. janúar 2013.“

Í greinargerð segir, herra forseti, að með lögum þessum sé innleitt ákvæði a-liðar 2. mgr. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB frá 20. desember 2006 um ökuskírteini, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2008 frá 14. mars 2008.

Með 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á gildandi lögum að fullnaðarskírteini gildi ekki lengur þar til hlutaðeigandi er fullra 70 ára heldur einungis í 15 ár frá útgáfu þess. Lög þessi skulu þó ekki hafa áhrif á ökuréttindi sem hafa verið veitt eða verið aflað fyrir gildistökudag laganna. Gildistökuákvæðið er miðað við gildistöku 19. janúar 2013 en frá og með þeirri dagsetningu skulu skírteinin gefin út samkvæmt hinum nýja gildistíma, eða í 15 ár. Því er áríðandi að lögin verði samþykkt og birt fyrir 19. janúar 2013.

Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég í greinargerð með frumvarpinu.