141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[23:21]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum, það er 448. mál á þskj. 736.

Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Eiríkur Blöndal, Jóhannes Sigfússon og Haraldur Benediktsson frá Bændasamtökum Íslands, Árni Snæbjörnsson frá Bjargráðasjóði, Sigurður Eyþórsson og Þórarinn Ingi Pétursson frá Landssamtökum sauðfjárbænda og Sigurður Loftsson og Baldur H. Benjamínsson frá Landssambandi kúabænda. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Svínaræktarfélagi Íslands og Gunnari Ríkharðssyni.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum búnaðarlaga og búvörulaga. Hvað fyrrnefndu lögin varðar er lögð til breyting á fyrirkomulagi leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði. Þannig er lagt til að umsjónarsvæði landsráðunautar eða fagstjóra nái til alls landsins í stað landshluta og faglegt eftirlit og ráðgjöf verði í höndum einnar leiðbeiningarmiðstöðvar sem starfi undir faglegri stjórn Bændasamtaka Íslands. Með tillögum um breytingar á ákvæðum búvörulaga er annars vegar stefnt að því að treysta lagalegan grundvöll breytinga og framlenginga á samningum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, sauðfjárræktar og framleiðenda garðyrkjuafurða og hins vegar að gera breytingar á ákvæðum til bráðabirgða til að bregðast við afleiðingum óveðurs á Norðurlandi í haust.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 28. nóvember sl. og því vísað til nefndarinnar 8. desember. Á fundi nefndarinnar með fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, 11. sama mánaðar, var athygli nefndarinnar vakin á því að ráðherra hefði nýverið fyrirskipað förgun á 33 kúm á einu kúabúi. Förgunin var liður í því að útrýma smitandi barkabólgu, A-sjúkdómi, sem uppgötvaðist í haust en aldrei hefur greinst hér áður. Eftir fund nefndarinnar 13. desember barst nefndinni ábending frá Bændasamtökum Íslands. Þar kom fram að bætur vegna niðurskurðar á búfé vegna A-sjúkdóma, að riðu undanskilinni, væru greiddar úr ríkissjóði enda væri ákvörðun um slíkan niðurskurð byggð á almannahagsmunum. Þá var þar áréttað mikilvægi þess að greiddar yrðu bætur vegna niðurskurðarins á kúabúinu.

Að mati nefndarinnar er eðlilegt að stjórnvöld ráðist í nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja viðvarandi rekstur kúabúa þegar framleiðsla dregst tímabundið saman í ljósi förgunar bústofns. Útrýming alvarlegra sjúkdóma varðar almannahag en niðurskurður hennar vegna getur haft umtalsverð áhrif á vilja og getu einstaklinga til áframhaldandi búskapar að aðgerðum loknum. Mat nefndarinnar er að mikilvægt sé að bregðast við þeim atburðum sem hafa átt sér stað. Því leggur nefndin til breytingu á 9. gr. frumvarpsins. Lagt er til að greinin innihaldi ekki aðeins þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu heldur verði bætt við tímabundinni heimild til að haga beingreiðslum til lögbýlis vegna mjólkurframleiðslu samkvæmt greiðslumarki þess óháð framleiðslu á lögbýlinu þegar samdráttur eða niðurfall hennar orsakast af aðgerðum sem ráðherra fyrirskipar til útrýmingar á sjúkdómi. Aðeins er gert ráð fyrir að heimildin gildi um aðgerðir sem fyrirskipaðar eru á líðandi almanaksári. Að mati nefndarinnar er ljóst að ekki eru til staðar nægileg, viðvarandi úrræði til að bregðast við þegar alvarlegir sjúkdómar koma upp. Telur nefndin ástæðu til að hvetja ráðherra til að taka þessi mál upp í viðræðum við Bændasamtök Íslands. Þannig gæti til að mynda verið rétt að kanna og ræða hvort grunn varanlegra úrræða sé að finna í lagaumhverfi og ákvæðum samninga um viðbrögð við riðuveiki í sauðfé. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Við 9. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „enda sé að minnsta kosti annað þessara skilyrða einnig uppfyllt“ í 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Með sama fororði er heimilt að greiða beingreiðslur til lögbýlis vegna ráðstafana sem ráðherra hefur fyrirskipað fyrir árslok 2012 til útrýmingar á sjúkdómi. Greiðslur samkvæmt þessu ákvæði eru þó aðeins heimilar ef a.m.k. annað eftirgreindra skilyrða er uppfyllt.“

Þetta var gert á Alþingi 14. desember 2012 og undir þetta skrifa sá sem hér stendur, formaður og framsögumaður málsins, auk þess Þuríður Backman, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, Sigurður Ingi Jóhannsson, með fyrirvara, og Þór Saari, með fyrirvara.

Jónína Rós Guðmundsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.