141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

gatnagerðargjald.

290. mál
[23:33]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gatnagerðargjald, með síðari breytingum. Frá umhverfis- og samgöngunefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur frá innanríkisráðuneyti.

Í frumvarpinu er lagt til að í stað dagsetningarinnar 31. desember 2012 í ákvæði til bráðabirgða komi dagsetningin 31. desember 2015, þ.e. að gildistíminn sé framlengdur um þrjú ár. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að samkvæmt kostnaðarmati innanríkisráðuneytisins sé gert ráð fyrir að þau sveitarfélög sem geti nýtt sér heimild til álagningar og innheimtu svokallaðs B-gatnagerðargjalds samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu til næstu áramóta verði af tæplega 214 millj. kr. tekjum komi ekki til framangreindrar lagabreytingar. Nefndin óskaði eftir minnisblaði ráðuneytisins um hvernig talan 214 millj. kr. í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um frumvarpið hefði verið fundin og það minnisblað barst nefndinni 12. desember sl.

Samkvæmt því er kostnaðarmat ráðuneytisins gert samkvæmt 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, en þar segir m.a. að ef fyrirsjáanlegt sé að tillaga að lagafrumvarpi muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skuli fara fram sérstakt mat á áhrifum þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Þegar mat á fjárhagslegum áhrifum tillögu að lagafrumvarpi liggur fyrir skuli það þá þegar lagt fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga til umsagnar. Eins og fram kemur í frumvarpinu kom tillaga þessi að lagafrumvarpi því sem hér er til meðferðar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fjárhagsleg staða nefndra sveitarfélaga var reiknuð þar og var mat ráðuneytisins samkvæmt 129. gr. sveitarstjórnarlaga unnið á þeim grundvelli.

Þá kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins að sveitarfélögin eigi eftir að leggja slitlag á götur fyrir um 822 millj. kr. þar sem ekki er slitlag fyrir. Heimildin til að innheimta gatnagerðargjöld upp í framkvæmdakostnað álagningarinnar renni hins vegar út um áramótin. Verði breytingin á lögunum ekki samþykkt verði þessar framkvæmdir 214 millj. kr. dýrari fyrir sveitarfélögin en þær yrðu ella færu þau í umræddar framkvæmdir.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit rita auk framsögumanns sem hér stendur hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, Skúli Helgason, Álfheiður Ingadóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson og Atli Gíslason.