141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni þá úttekt sem var gerð á Ríkisendurskoðun en sérfræðingateymi frá þremur löndum fór yfir störfin. Það er mjög jákvæð úttekt og sagt að skýrslur stofnunarinnar séu læsilegar og skili stjórnsýslunni og Alþingi ávinningi. Ég hef margoft tekið það hér upp að þó að skýrslurnar séu læsilegar og eigi að skila Alþingi ávinningi hafi Alþingi oft og tíðum gert mjög lítið með ábendingar og athugasemdir frá Ríkisendurskoðun. Það segir sig sjálft þegar maður les skýrslur jafnvel ár eftir ár og sér að stofnunin hefur nánast getað gert það eitt að skipa um ártöl á athugasemdunum og skýrslunum. Það er merki um hvað Alþingi hefur gert lítið með þá miklu og góðu vinnu sem unnin hefur verið af Ríkisendurskoðun.

Ég vil í þessu sambandi nefna að mikið er rætt um Íbúðalánasjóð þessa dagana. Haustið 2005 skilaði Ríkisendurskoðun mjög ítarlegri skýrslu um Íbúðalánasjóð og stöðuna sem þá var. Sú skýrsla var aldrei nokkurn tíma rædd í þingsölum Alþingis, aldrei, þetta vandaða og góða plagg. Mér fannst hún ekki heldur til fyrirmyndar sú aðför — ég veit ekki hvort ég á að nota það orð, en alla vega var um að ræða upphlaup og ofsafengin viðbrögð sumra hv. þingmanna. Ég vil líka segja að ég er mjög ánægður með hvernig hæstv. forseti brást við þeirri gagnrýni á sínum tíma.

Meiri hlutinn í hv. fjárlaganefnd hefur talað mikið um að fjárlagafrumvarpið hafi verið til meðferðar í 100 daga og að það hafi aldrei gerst áður. Það væri kannski spurning fyrir hv. þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar að óska eftir því að láta gera sams konar úttekt og hér er gerð á störfum fjárlaganefndar við meðferð þess frumvarps sem við ræðum þessa stundina.