141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar stjórnarmeirihlutinn áttaði sig á því að hann hefði ekki Ríkisendurskoðun í vasanum og gæti ekki látið hana sitja og standa eins og meiri hlutanum þóknaðist hverju sinni var brugðist við með þeim hætti að reyna að setja Ríkisendurskoðun í frost. Það átti eiginlega að reyna að svæla þá til þess að gerast taglhnýtingar ríkisstjórnarinnar en það tókst ekki. Þá urðu viðbrögðin ofsafengin, eins og við höfum kynnst hér í þingsal, og vegið var að starfi og sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Reyna átti að koma í veg fyrir að hún gæti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem var meðal annars að fara yfir ríkisfjármálin. (Gripið fram í: Rétt.)

Þetta er mjög alvarlegt vegna þess að við höfum talað fyrir því á Alþingi að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að efla stöðu Alþingis til að geta lagt sitt sjálfstæða mat á það sem framkvæmdarvaldið er að gera á hverjum tíma. Er það ekki svolítið sérkennilegt að á sama tíma og verið var að gera þetta voru einstakir stjórnarliðar að veifa hugmyndum sínum um að endurreisa Þjóðhagsstofnun í einhverri mynd, til þess meðal annars að efla sjálfstæði Alþingis til að leggja sitt mat á þróun hagstærða og slíkra hluta? Það er auðvitað mjög sérkennilegt.

Hins vegar er það jafngleðilegt að nú hefur það gerst að það teymi sérfræðinga frá þremur löndum sem var fengið til að fara yfir vinnubrögð Ríkisendurskoðunar við stjórnsýsluendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau vinnubrögð séu í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla, afköst stofnunarinnar séu mikil, starfsemi hennar einkennist af krafti, metnaði og umbótavilja, skýrslur stofnunarinnar séu læsilegar og skili stjórnsýslunni og Alþingi ávinningi. Það er þessi stofnun sem ýmsir stjórnarliðar lögðu hreinlega í einelti og reyndu að veikja eins og þeir mögulega gátu, reyndu að koma í veg fyrir að hún gæti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Ég held að þetta ætti að vera lexía sem þeir þingmenn ættu að læra af og Alþingi ætti að draga sinn lærdóm af.