141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

bókasafnalög.

109. mál
[11:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér eru greidd atkvæði um að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi almenningsbókasafna, skólabókasafna og Blindrabókasafns Íslands og um leið verða felld niður lög um almenningsbókasöfn sem og ákvæði um bókasöfn á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Einnig er kveðið á um að stofnaður verði bókasafnssjóður sem hafi það að markmiði að efla starfsmenn bókasafna með því að styrkja rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni í greininni. Þá er lagt til það nýmæli að stofnað verði bókasafnsráð sem verði ráðherra og stjórnvöldum til ráðgjafar og vinni m.a. að stefnumótun um starfsemi bókasafna.

Að lokum er í frumvarpinu gert ráð fyrir skýrum heimildum til gjaldtöku vegna útlána. Nefndin telur að það mál sé almennt til mikilla bóta fyrir starfsemi bókasafna í landinu en leggur til nokkrar breytingar sem eru eingöngu lagatæknilegs eðlis. Ég legg til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem kveðið er á um í nefndarálitinu og eru allar lagatæknilegs eðlis.