141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[11:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er gert ráð fyrir því að nýta krafta fólks sem er orðið sjötugt og eldra. Fólk er nefnilega miklu sprækara en það var fyrir um 50 árum og hefur mikla reynslu. Mér finnst alveg sjálfsagt að nota reynslu, kraft og dugnað þeirra sem vilja starfa eftir sjötugt.

Ég sakna þess hins vegar eins og hér kom fram áðan að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki almenna stefnu um það að nýta krafta opinberra starfsmanna eftir sjötugt. Menn hafa borið því við að atvinnuleysi sé slæmt. Það er ekkert samhengi á milli ellilífeyrismarka og þess að menn vinni lengur og að unga fólkið fái vinnu. Þetta eru allt önnur störf, störf myndast með fjárfestingu en ekki með því að lækka ellilífeyrisaldur eða eitthvað slíkt. Ég sit hjá.