141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[11:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði gert tilraun til að taka til máls um atkvæðagreiðslu áður en hæstv. forseti hóf hana en nota tækifærið núna til að koma því að að í þessu frumvarpi felast ýmsar breytingar til að fylgja eftir breytingum á Stjórnarráðinu í fyrra. Breytingartillögurnar sem liggja fyrir eru fyrst og fremst orðalagsbreytingar sem ekki er ástæða til að gera athugasemdir við og mun ég sitja hjá við þær atkvæðagreiðslur, sem og við sumar af hinum. Ég vil þó geta þess að í 1. gr. frumvarpsins felst breyting á yfirstjórn Hafrannsóknastofnunar sem við sjálfstæðismenn í nefndinni höfum lagst gegn og mælt á móti í þinginu þannig að við munum greiða atkvæði gegn því. Breytingartillögurnar sem eru til umræðu og atkvæðagreiðslu eru ekki meinlegar að því leyti, þær fela fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar, en í atkvæðagreiðslu um 1. gr. frumvarpsins er hins vegar raunveruleg efnisbreyting.