141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál. Það var á sínum tíma borið fram af hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Árni Páli Árnasyni og hann á að fá heila þökk fyrir það.

Þetta mál hefur auðvitað verið mjög lengi til umræðu. Menn hafa verið í vandræðum með að finna leiðir til að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Auðvitað getur menn greint á um einstök útfærsluatriði og þess háttar en aðalatriðið finnst mér vera að þetta skref skuli þó vera stigið til að reyna að lækka flutningskostnað sem er mjög sligandi. Það á sérstaklega við hjá þeim byggðum sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu og þurfa að sækja þangað þjónustu og selja þangað framleiðsluvörur sínar eða senda til útflutningshafnarinnar í Reykjavík. Sérstaklega á þetta auðvitað við þau svæði sem búa við lélegar samgöngur þar sem hlutfallslegur flutningskostnaður er enn þá meiri.

Hér er einnig verið að leggja til að færa umsýslu þessa máls úr ráðuneytinu inn í Byggðastofnun. Það tel ég líka vera eðlilegt skref. Það er eðlilegra að undirstofnun ráðuneytisins haldi utan um þessa hluti.