141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[12:27]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þurfum að greiða atkvæði um þetta mál eftir 2. umr. en nefndin hefur óskað eftir því að kalla það inn til 3. umr. vegna mistaka sem urðu á nefndasviði og hafa ekkert að gera með þingmenn sem sitja í nefndinni.

Það er rangt sem kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni að málið hefði verið afgreitt úr nefndinni áður en umsagnarfrestur rann út. Málið var afgreitt úr nefndinni sama dag og umsagnarfrestur rann út en handvömm á nefndasviði, sem viðkomandi starfsmaður harmar, varð þess valdandi að nefndarmönnum var ekki kunnugt um umsagnir sem höfðu borist.

Þetta er engu að síður tiltölulega einfalt mál sem hefur verið lengi í vinnslu, fengið víðtæka og góða kynningu og tekið breytingum milli þinga vegna ábendinga frá sveitarfélögunum þannig að málið liggur nokkuð ljóst fyrir. En það er sjálfsagt og eðlilegt að taka það fyrir við 3. umr. og yfirvega betur og nánar þau sjónarmið sem fram komu á fundi nefndarinnar í morgun þegar fundað var með fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem höfðu óskað eftir (Forseti hringir.) að koma erindi sínu á framfæri við nefndina.