141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[12:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu í ljósi þess að málið kemur aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég vona að það fái góða skoðun þá. Ég verð að segja að mér hrýs nokkuð hugur við því að málið verði afgreitt áður en þingi lýkur nú fyrir jólin í ljósi þess hvaða mistök urðu í sambandi við málsmeðferðina sem gerir það að verkum að málið hefur ekki fengið nægilega skoðun í þinginu. Ég ætla ekkert að blanda mér í deilur um það að öðru leyti nema hvað að mér finnst ekki gott að við ætlum á síðustu klukkustundum þingsins að vera að hræra í jöfnunarsjóðsfyrirkomulaginu jafnvel þótt ráðuneytið og aðrir hafi farið yfir það áður og gert tillögur um það. Mér finnst nokkuð bratt fyrir okkur þingmenn að ætla að afgreiða þetta án þess að málið fái viðhlítandi skoðun.

Ég sit hjá við þessa umræðu og vonast til þess að það verði góð umfjöllun (Forseti hringir.) milli 2. og 3. umr. en mér hrýs nokkuð (Forseti hringir.) hugur við því að klára málið nú fyrir helgi.