141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég styð þau fjárframlög sem eru til íslensks landbúnaðar í þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir enda mikilvægt að leggja fé til að efla þessa mikilvægu atvinnugrein. Ég hef hins vegar lengi haft efasemdir um að styrkjunum sé háttað með sem bestum hætti til að þeir skili árangri bæði fyrir bændur og samfélagið. Þess vegna stend ég ekki að þessu máli.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að það fari ekki vel á því að fráfarandi Alþingi samþykki fjárútgjöld mörg ár fram í tímann [Kliður í þingsal.] og að hluta til út næsta kjörtímabil. Ég tel að fjárstýringarvaldinu eigi að vera þannig háttað að nýtt þing geti á hverju ári ákveðið hver fjárstuðningurinn eigi að vera hverju sinni. Það dregur sömuleiðis úr þeirri hættu að menn veðsetji atvinnuréttindi til langrar framtíðar og skuldsetji þannig heilu atvinnugreinarnar, bæði neytendum og þeim sem í framtíðinni eiga að vinna í þeim (Forseti hringir.) atvinnugreinum til tjóns.