141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um breytingar á fjárlagafrumvarpi milli 2. og 3. umr. og er þar af ýmsu að taka eins og vera ber, en mig langar áður en ég fer ofan í helstu atriði þeirra breytinga sem hér eru til umfjöllunar að horfa á stóru myndina í þessu máli öllu. Auðvitað er það aðalatriðið þegar fjallað er um þetta fjárlagafrumvarp hvernig okkur hefur gengið á síðustu árum að minnka fjárlagahallann. Það verk hefur gengið vel, um það eru allir meira og minna sammála þó að sumir rembist eins og rjúpan við staurinn við að halda öðru fram. Hallinn var í upphafi 216 milljarðar kr., nálega 10% af vergri þjóðarframleiðslu, en er nú kominn niður í á að giska 3 milljarða sem eru 0,2% af þjóðarframleiðslu. Þessar tölur sýna umfram allt að okkur hefur orðið ágengt. Það er og hlýtur að vera aðalatriði þessa máls hvernig okkur hefur gengið að eiga við fjárlagahallann sem er og hefur verið meginmeinsemdin í ríkisbúskapnum á síðustu árum. Þetta er gleðiefni og ber að fagna þessu í hvaða flokki sem er.

Þetta hefur hins vegar kostað erfiða aðgerð eins og oft hefur verið komið inn á í þessu ræðupúlti. Við höfum þurft að afla meiri tekna, gæta að útgjöldum og skera þau niður, sums staðar með erfiðum, viðkvæmum og vissulega mjög óvinsælum aðgerðum, en þetta hefur þurft að gera til að takast á við vandann. Þetta gerðum við hratt og skipulega, ella stæðum við frammi fyrir enn meiri vanda í dag. Það var nefnilega mikilvægt að grípa strax inn í þá atburðarás sem hófst með efnahagshruninu og það gerði sú vinstri stjórn sem nú er við völd og við erum að uppskera árangurinn með viðspyrnu og því að niðurskurðinum skuli vera lokið.

Herra forseti. Það er ástæða til að koma inn á nokkur atriði er varða breytingar milli umræðna og þar erum við að mati þess sem hér stendur að halda áfram í velferðarátt. Við erum að koma til móts við brýn úrlausnarefni, brýnar þarfir. Hér er ekki verið að eyða í óþarfa að mati þess sem hér stendur, heldur erum við á sömu braut og við fórum við lagfæringar á fjárlagafrumvarpinu við 2. umr. Þar var gætt að útgjaldaliðum í heilbrigðisþjónustunni og bætt um betur á helstu spítölum landsins, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem eru lykilstofnanir þegar kemur að heilbrigðismálum og þeirri þjónustu sem þar er rekin.

Við komum líka með breiðara svið atvinnulífsins inn í fjárlögin, sóttum fram á sviði skapandi greina og sýndum þá pólitík að reyna að breikka atvinnusviðið vegna þess að við vitum að störfum mun ekki fjölga að ráði í hinum hefðbundnu greinum á komandi árum. Þar er ég að tala um sjávarútveg og landbúnað með fullri virðingu fyrir þeim atvinnurekendum sem eiga í mikilli hagræðingu nú um stundir. Fyrir vikið þurfum við að leita á önnur svið til að fjölga störfum, hvort heldur er í fjölbreyttum iðnaði eða hinum skapandi greinum. Þess vegna er mjög metnaðarfullt og eðlilegt að sækja inn á þessar brautir til að fjölga störfum. Fjölgun starfa er lykilatriði fyrir íslenska þjóð á komandi árum og það er gert í þessu fjárlagafrumvarpi.

Í upphaflegu fjárlagafrumvarpi var gert ráð fyrir því að við kæmum til móts við barnafjölskyldur í auknum mæli, ykjum barnabætur og vaxtabætur og lengdum fæðingarorlof. Upphaflegt fjárlagafrumvarp kom með þessum formerkjum til móts við barnafjölskyldur og með breytingum á fjárlagafrumvarpinu höfum við komið enn frekar til móts við velferðarkerfið hvað varðar spítalana og framhaldsskólann. Síðan kem ég að helstu breytingum við 3. umr. fjárlaga sem varða nokkra þætti í samfélaginu sem lúta að velferðarmálum.

Mig langar fyrst af öllu að nefna 232,5 millj. kr. til háskólanna í landinu. Þar er verið að koma til móts við fjölgun nemenda með til dæmis 70 millj. kr. framlagi til Háskóla Íslands sem er vel. Ég nefni einnig tugmilljóna króna viðbótarfjárveitingar til Háskólans á Bifröst, svo Hólaskóla upp á 39 milljónir og 43,5 millj. kr. viðbótarframlag til Háskólans í Reykjavík sem ég fagna sérstaklega vegna þess að sá skóli er að víkka að mínu viti menntunarstig samfélagsins. Hann sinnir verknámi meira en aðrir skólar sem huga að almennu námi. Það er mjög brýnt að breikka menntunarsvið samfélagsins alveg á sama hátt og við erum að freista þess að breikka atvinnusvið samfélagsins. Þetta þarf að haldast í hendur og það er trú mín og fullvissa að þetta viðbótarframlag til Háskólans í Reykjavík geti einmitt komið til móts við aukna þörf á að breikka menntunarsvið samfélagsins.

Í rauninni þurfum við að fara enn frekar í þessa átt á komandi árum. Við verðum að heyra kall atvinnulífsins þegar kemur að menntamálum og auka framlög til breiðara náms, einkanlega verknáms, á komandi árum ef menntun landsmanna á að ríma við atvinnusviðið.

Hér erum við að stíga skref í þessa átt og það er vel.

Í tengslum við háskólanámið langar mig líka að geta þess að hér er verið að verja 30 millj. kr. til að tryggja bóklegan þátt flugnámsins sem er mjög mikilvægt vegna þess að sá hluti flugnámsins suður með sjó hefur verið svo að segja heimilislaus, þvælst á milli ráðuneyta, á milli innanríkisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en á vitaskuld best heima hjá menntamálaráðuneytinu. Það er trú okkar sem stöndum að þessum breytingum á fjárlagafrumvarpinu að flugnámið, hið bóklega, verði framvegis vistað hjá menntamálaráðuneytinu. Þar á það heima og hvergi annars staðar. Hér er komið til móts við þær þarfir, ella hefði bóknám að einhverju og jafnvel öllu leyti lagst af hér á landi. Það gengur ekki.

Það er ástæða til að geta sérstaklega þeirra 200 millj. kr. sem varið er í óskiptan pott til lögreglumála. Eins og kemur fram í greinargerð með breytingartillögunum er ætlast til þess að innanríkisráðherra verji þeim fjármunum til þeirra brýnu löggæslumála hringinn í kringum landið sem hafa að mörgu leyti verið svelt. Við höfum þurft að skera rækilega niður í útgjöldum ríkisins til margra þátta, þar á meðal löggæslumála. Ef til vill má segja að þar hafi verið gengið of skarpt fram, en niðurskurðurinn var nauðsynlegur, hann er viðkvæmur og hann var klárlega mjög óvinsæll. Þessi ríkisstjórn hefur ekki tekið þátt í mjög vinsælum aðgerðum eðli málsins samkvæmt, hún þurfti að taka hratt og vel á eftirmálum hrunsins, m.a. hvað útgjöld ríkisins varðaði. Þetta hefur gert það að verkum að fækka hefur þurft í lögregluliði víða um land illu heilli og segja margir að lögreglan sé á köflum orðin ósýnileg víða um land. Þannig má það ekki vera. Þess vegna var mjög mikilvægt að leggja til þennan 200 millj. kr. óskipta pott sem innanríkisráðuneytið og þar til bærar stofnanir sem heyra undir það geta úthlutað til brýnna verkefna.

Þar tala ég kannski sérstaklega um fámennustu lögreglusveitirnar sem er að finna úti á landi. Nú þegar höfum við komið til móts við þarfir löggæslunnar á Suðurnesjum vegna aukinna verkefna, þótt ekki nema væri af fjölgun ferðamanna þar um slóðir sem koma til landsins svo hundruðum þúsunda skiptir. Í þessum viðbótarfjárveitingum er núna verið að koma til móts við hina almennu lögreglu víða um land. Það er vel og það er nauðsynlegt og var orðið brýnt að grípa inn í þetta ferli þegar við blasti að fækka hefði þurft enn frekar í lögregluliði landsmanna af ekki hefði komið til þessi viðbótarfjármögnun. Það er trúa mín og vissa að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi geti verið sammála um að þarna er komið til móts við brýna þörf (SIJ: Of lítið.) og ég held að við þurfum ekki að kljást mikið um þennan lið. Vissulega hefði þetta mátt vera hærri upphæð eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson grípur hér inn í og bendir á en það er ekki af nógu að taka. Það þarf áfram að gæta aðhalds. Við ætlum ekki aftur að fara að eyða um efni fram. Sá tími er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur. Þess vegna þarf að ganga hægt um þær gleðinnar dyr sem liggja inn í hirslur ríkissjóðs og gæta hófs.

Ég vil líka geta þess að 100 milljónum er varið til Landhelgisgæslu Íslands. Það kemur til af því að sérverkefnum Landhelgisgæslunnar hefur fækkað á síðustu missirum. Það var mikið stökk á kafla í Miðjarðarhafi þegar forkólfar Landhelgisgæslunnar gátu sent þangað skip sín og önnur tæki til að gæta landamæra á hafi úti en þar er ásókn flóttamanna frá Norður-Afríku og víðar um þá álfu viðvarandi. Þau verkefni eru að baki og fyrir vikið getur Landhelgisgæslan ekki sótt sér áfram viðbótarfé með þessum hætti. Hér er verið að bregðast við þessum þætti í gæslu landsins.

Það er ástæða til að nefna líka framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þar er um að ræða 25 millj. kr. sem er hugmynd hv. fjárlaganefndar sjálfrar og kemur auðvitað til af þeim miklu verkefnum sem sjálfboðaliðar í Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hringinn í kringum landið tóku þátt í síðsumars og í byrjun hausts þegar svo að segja snjóflóð hrundu af himnum ofan á stórum parti norðurhluta landsins. Þeir hafa þar að auki þurft að taka þátt í mörgum öðrum mjög kostnaðarsömum verkefnum. Þetta framlag fjárlaganefndar sjálfrar til Slysavarnafélagsins Landsbjargar getur vonandi mætt þeirri brýnu þörf sem er innan þessarar einna mikilvægustu stofnunar samfélagsins ef svo má að orði komast. Ég held að allir landsmenn séu sammála um að Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir einhverju mikilvægasta starfinu hér á landi, því að gæta öryggis íbúanna. Liðsmenn þar gera það í sjálfboðavinnu og eru mættir til starfa hvenær sem er ársins, á hvaða tíma sólarhrings sem er. Fjárlaganefnd er hér ef til vill að launa þeim með einhverjum hætti þau miklu verkefni sem þeir hafa ráðist í á undanliðnum vikum og mánuðum svo eftir hefur verið tekið. Ég held að við þurfum ekki að fara í flokkspólitískan ham yfir þessum 25 millj. kr. sem varið er til að styrkja fjárhag Landsbjargar. Hann hefur verið þröngur á undanliðnum árum og ef þessi fjárveiting hefði ekki komið til hefði Landsbjörg væntanlega þurft að skera allhressilega niður í mjög mikilvægum rekstri sínum og þurft að skera niður í þjónustu björgunarbáta eftir því sem sá sem hér stendur hefur leitað sér upplýsinga um. Það væri ekki gott.

Mig langar líka að nefna það framlag sem fæst til ríkisstyrkts innanlandsflugs við 3. umr. fjárlaga. Að mati þess sem hér stendur er afskaplega brýnt að leggja þessu flugi lið á fjárlögum hvers árs. Flugið innan lands er að verða illu heilli dýrara fyrir almenning vegna ýmissa kostnaðarþátta, nægir þar að nefna olíu og bensín, en einnig aukinnar skattheimtu sem við getum rætt hér við annað tækifæri. Sá sem hér stendur er ekkert endilega hrifinn af henni því að innanlandsflugið er partur af almenningssamgöngum þessa lands og íbúar hringinn í kringum landið eiga að geta sótt sér öruggar almenningssamgöngur hvar svo sem þeir búa. Hér er verið að ræða um flug til svæða sem eru að mörgu leyti landfræðilega einangruð, bæði af landfræðilegum og veðurfræðilegum aðstæðum. Nægir þar að nefna Gjögur, en þangað er varla heflaður vegur lengur, Grímsey, Þórshöfn og Vopnafjörð svo nokkur sveitarfélög séu nefnd. Hér er ekki um neina ölmusu að ræða, því fer fjarri. Hér er verið að ræða um mörg þau sveitarfélög sem afla gríðarlegra tekna. Ég nefni sem dæmi Vopnafjörð sem aflar þjóðarbúinu 10 milljarða kr. tekna. Þeim milljörðum fer fjölgandi, það sveitarfélag skilar gríðarlegum verðmætum inn í samfélagið og það er fullkomlega eðlilegt að samfélagið launi Vopnfirðingum, svo dæmi sé tekið af þessum stöðum, með því að þangað sé tryggt og öruggt flug allt árið um kring. Ef flug legðist af til staða eins og Vopnafjarðar, Þórshafnar, norðurhluta Strandasýslu og Grímseyjar værum við einfaldlega að framleiða minna í þessu landi og búa til minni gjaldeyri þannig að þessum peningum, 75 milljónum til viðbótar, er einfaldlega mjög vel varið og þær skila sér margfaldlega.

Það er hins vegar ástæða til að dvelja aðeins við þennan lið því að það má ekki verða svo að þessum 75 milljónum verði varið til annars en einmitt þess flugs sem ber að ríkisstyrkja. Það á ekki að nota þennan pening til að mæta ákalli víðar um landið. Ég nefni sem dæmi flug til Sauðárkróks. Vegna mikilla vegabóta er flug þangað ekki lengur arðbært og þeir þar um slóðir njóta betri samgangna. Flugið var að uppistöðu notað af Siglfirðingum en vegna augljósra vegabóta þar um slóðir hefur orðið minna um flug til þessa svæðis. Hér er fyrst og fremst verið að ræða um svæði sem ég nefndi áðan, svæði sem þurfa á þessum fjármunum að halda til að vega upp á móti samgönguleysi af landfræðilegum og veðurfræðilegum aðstæðum. Það á ekki við um sum svæði en það á sannarlega við um önnur svæði og þennan pening á að nota akkúrat og einmitt og einvörðungu til þeirra svæða og er það ítrekað í þessum orðum.

Mig langar að nefna viðbótarframlag sem fékkst á síðustu metrum umræðunnar um fjárlögin 2013, en það er til þjóðkirkjunnar, þ.e. sóknargjalda, upp á á fimmta tug milljóna króna. Sóknirnar báðu um meiri fjármuni en að einhverju leyti er komið til móts við sóknirnar með þessum tugum milljóna króna. Það gat ekki verið minna að mati þess sem hér stendur. Þjóðkirkjan og sóknir landsins eru partur af velferðarþjónustunni og þjónusta sóknanna er að mörgu leyti vanmetin í dægurþrasinu, hugsanlega stórlega vanmetin þegar kemur að sáluhjálp margs konar sem er nauðsynleg og innt af hendi án gjalda hringinn í kringum landið þegar horft er inn í allt það góða og mikla kirkjustarf sem hér er rekið. Kirkjan hafði sjálf nefnt 180 milljónir til að koma til móts við þarfir hennar í þessum efnum. Okkur taldist til að það væri nær 140 milljónum en hér er komið til móts við sóknir landsins og vonandi er þetta upphaf að því að hlutur sóknanna verði leiðréttur enn frekar inn í komandi ár, auk þess sem stjórnvöld og þjóðkirkjan, embætti biskups, munu á komandi vikum taka upp viðræður um breytta hætti á fjárveitingum til þjóðkirkjunnar sem að mörgu leyti eru festir í sjóði og girt fyrir að flæði á milli. Eðlilegt er að kirkjan hafi meira sjálfdæmi um það hvernig hún getur veitt sína fjármuni til þörfustu þátta sinna á hverjum tíma en fjárveitingar hennar séu ekki það niðurnjörvaðar að hún geti ekki mætt breyttum aðstæðum hverju sinni. Þess vegna er mjög eðlilegt að umræður fari fram á næstu vikum um hvernig þjóðkirkjan geti í auknum mæli stjórnað sínum fjármunum sjálf í takt við sínar þarfir og að sú fjárveiting sem fæst aukalega nú til sóknargjalda sé upphafið að því að hlutur sóknanna verði leiðréttur enn frekar.

Við sem hv. fjárlaganefnd getum ekki komið til móts við allar óskir. Það er eðlilegt vegna þess að við ætlum okkur ekki aftur að eyða um efni fram. Við erum að reyna að nálgast heildarjöfnuð og hann næst vonandi á næsta ári þegar við getum farið að borga vel af skuldum okkar, en á meðan þurfum við að gæta hófs, á meðan þurfum við að neita mörgum óskum frá mörgum mikilvægum félögum og stofnunum um að hlutur þeirra verði betur leiðréttur á fjárlögum næsta árs. Það á við um þjóðkirkjuna, það á við um skóla samfélagsins, það á við um heilbrigðisstofnanir samfélagsins og ýmis mjög mikilvæg félagasamtök sem hafa verið á spena ríkisvaldsins. Þau fá ekki allar óskir sínar uppfylltar en það er komið til móts við brýnustu þættina að mati þess sem hér stendur þegar horft er til tillagna sem liggja á borðinu við 3. umr. fjárlaganna.

Herra forseti. Ég hef komið inn á ýmsa þætti í breytingum á fjárlagafrumvarpinu. 3. umr., eins og ég gat um, sýnir að við erum að reyna að koma enn frekar til móts við margt í velferðarþjónustunni sem hefur mætt miklum niðurskurði, nauðsynlegum niðurskurði illu heilli. Auðvitað væri hægt að ganga lengra á mörgum sviðum en þá þyrfti að eyða meiri peningum og þá þyrfti að afla meiri tekna. Sá sem hér stendur telur að þar séum við komin að vatnaskilum. Við getum ekki lagt öllu meira á fólk og fyrirtæki. Þar erum við komin að ákveðnum endimörkum.

Við getum ekki farið í meiri hagræðingu á mörgum viðkvæmustu stofnunum samfélagsins. Vonandi getum við farið að skila þessum auknu tekjum og hagræðingu aftur út til samfélagsins, aftur út til fólks og fyrirtækja. Við þurftum að taka okkur á tímabundið en árangurinn af fjárlagagerð síðustu ára sýnir að viðspyrnan er hafin, niðurskurðinum er lokið. Það er vel og það gerðist einfaldlega vegna þess að við fórum rétt að. Við gripum strax inn í atburðarásina, öfluðum frekari tekna og skárum niður. Því miður var ekki hægt að skera mikið niður annars staðar en í stærstu flokkunum. Velferðarkerfið sjálft tekur helftina af ríkisútgjöldum eins og menn þekkja. Þar var af mestu að taka og þar þurfti að grípa til róttækustu aðgerðanna — að sinni — en nú erum við byrjuð að skila þessu til baka og það er vel. Við erum að sækja fram hvað sjúkrahúsin snertir. Við erum hætt að skera niður innan heilbrigðisstofnana hringinn í kringum landið og auk þess erum við að bæta hér fjárhag framhaldsskólanna, háskólanna og lögreglunnar og komum þar til móts við neyðaróp vil ég segja.

Það er hins vegar giska ámátlegt að heyra raddir stjórnarandstöðunnar við fjárlagaumræðuna. Þær raunaraddir hafa ekki verið mjög uppbyggilegar. Menn hafa á margan hátt talað sem gáttaðir væru, gáttaðir á ástandinu, gáttaðir á því að það hafi þurft að skera niður, gáttaðir á því að það hafi þurft að auka hér tekjur, gáttaðir á því að yfirleitt hafi þurft að gera eitthvað. Þeir virðast ekki vera í tengslum við þann veruleika sem við blasir í samfélaginu. Það var ekki hægt að taka á þessum vanda öðruvísi en að skera hratt niður illu heilli og ráðast í mjög óvinsælar aðgerðir. Það var ekki hægt að ráðast í þetta verkefni öðruvísi en að auka tekjur. Allt tal um annað er lýðskrum. Það er ónotalegt að heyra raddir um að ekki hafi þurft að ráðast í þessar aðgerðir sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur staðið í á undanliðnum missirum og hafa meira og minna verið óvinsælar, erfiðar, viðkvæmar og sumar jafnvel svo óvinsælar að legið hefur við átökum. Menn segja að það hefði mátt hækka skatta og álögur miklum mun minna en gert hefur verið, það hefði þurft að skera miklum mun minna niður í ríkisútgjöldum en gert hefur verið. Það varð að ráðast hratt og vel í þessar aðgerðir í ríkisfjármálum til að snúa vörn í sókn og það hefur verið gert með fjárlagagerð síðustu ára. Auðvitað er hún ekki fullkomin, ekki frekar en önnur mannanna verk, og auðvitað er eðlilegt að fá uppbyggilega og málefnalega gagnrýni á það fjárlagafrumvarp sem hér blasir við eins og þau sem á undan hafa komið.

Þar hefur vitaskuld ýmislegt mátt laga, en þegar við skoðum stóru myndina, heildarmyndina, er óneitanlega óttalega innantómt að heyra úr munni þeirra sem gerðu kannski stærstu stjórnmálamistök lýðveldistímans með því að færa eignir þjóðarinnar til karlmanna sem höfðu ekkert vit á því sem þeir voru að gera, eins og dæmin sanna úr bankavitleysunni sem upphófst hér við aldamótin, að þeir sem eru að reyna að reisa samfélagið við hafi farið rangt að.

Ég tel okkur þvert á móti hafa farið rétt að. Við höfum valið leið jöfnuðar út úr hruninu. Við höfum reynt að gæta hófs í niðurskurði til viðkvæmustu málaflokkanna og árangurinn erum við að sjá með því að viðsnúningurinn er hafinn, niðurskurðinum er lokið en eyðslan er ekki endilega hafin að nýju. Umframeyðslan er ekki hafin að nýju.

Ég held að ég geti ekki sagt að þetta fjárlagafrumvarp beri með sér einhverja eyðslu í óþarfa. Stjórnarandstaðan hefur nefnt það að hér fari peningar til gæluverkefna. Þar er hún söm við sig, hún telur það gæluverkefni að reyna að breikka svið atvinnulífsins. Ég tel það lífsnauðsynlegt til að mæta þeim fjölda sem kemur út á vinnumarkaðinn næstu árin. Við þurfum að búa hér til heillandi samfélag sem veðjar á sem flestar greinar samfélagsins og það á við um skapandi greinar, fjölbreyttan iðnað og líka sjávarútveg og landbúnað, en eftir því sem fjölbreytnin verður meiri í atvinnulífinu, þeim mun áhugaverðara verður að búa í þessu landi. Þetta fjárlagafrumvarp ber með sér að hér er veðjað á breiddina í samfélaginu (Forseti hringir.) en ekki einhæfni.