141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:56]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eðli málsins samkvæmt má búast við ófyrirséðum útgjöldum og jafnvel að einhverju leyti umfram fjárlagafrumvarpið á næsta ári. Það verður einfaldlega að bregðast við aðstæðum þegar þær koma upp. Ég vil í þeim efnum sérstaklega nefna að ég er mikill talsmaður þess að innviðir á Húsavíkursvæðinu verði tryggðir og ríkið verði þar ákveðinn hvati til að laða fram framkvæmdir og fjölbreytta iðnaðaruppbyggingu á svæðinu.

Forsendan fyrir þeirri uppbyggingu er auðvitað að innviðirnir verði tryggðir og náist fram í tíma því margir minni iðjuhöldar geta kannski ekki verið sá brautryðjandi sem stórt álver hefði verið á svæðinu, sem hefði kannski sjálft getað ráðist í innviði líkt og gerðist fyrir austan þegar Fjarðaál varð þar til.

Varðandi upplýsingarnar langar mig að nota seinni mínútuna mína í síðari innkomu til að ræða þær. Ég tek undir það með hv. þingmanni Ásbirni Óttarssyni að auðvitað eiga mikilvægar upplýsingar að liggja fyrir og fjárlaganefnd á sem eftirlitsaðili að hafa greiðan aðgang að þeim upplýsingum og ég vil fara í lið með hv. þingmanni í þeim efnum. Ég er ekki talsmaður þess að fela upplýsingar og þegar formlegar upplýsingar af þessu tagi liggja fyrir sem geta auðveldað fjárlaganefnd eftirlitshlutverk sitt, og það er eiginlega helgasta hlutverk hennar, eigum við allir að leggjast á eitt um að verða okkur úti um þær og þrýsta á að svo verði því ella getur fjárlaganefnd ekki rækt hlutverk sitt. Þess vegna er ég í liði með hv. þingmanni og vonandi allri fjárlaganefnd, við eigum að fá þessar upplýsingar fram. Það gildir kannski annað um óformlegar upplýsingar, nótur og glósur en formlegar upplýsingar.