141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann ræddi og kynnti þá skoðun sína að fjárlög ættu að endurspegla raunveruleg útgjöld en ekki ætluð. Þetta er rangur misskilningur eins og einhver hefði orðað það. Ríkisreikningur sýnir raunveruleg útgjöld en fjárlög sýna ætluð útgjöld og þarna á að vera samræmi á milli.

Hann nefnir í ræðu sinni að gagnrýni stjórnarandstöðunnar sé ekki í tengslum við raunveruleikann og að ríkisstjórnin hafi valið leið jöfnuðar út í gegnum þessa kreppu. Af því tilefni vil ég spyrja hv. þingmann: Hvernig samræmist það þessari yfirlýsingu að ríkisstjórnin hafi valið leið jöfnuðar út úr kreppunni? Kynbundinn launamunur hefur vaxið mjög mikið á öllu þessu kjörtímabili og hefur aldrei náð hærri hæðum heldur en einmitt núna. Hvernig samrýmist það leið jöfnuðar að á sama tíma og arðgreiðslur orkufyrirtækja leiða til hækkunar húshitunarkostnaðar á köldum svæðum þá skuli hv. þingmaður standa að því með stjórnarmeirihlutanum að ríkissjóður kaupi eignir af borgarsjóði til að greiða niður skuldir á einu orkuveitusvæði? Bæði þessi dæmi sýna ákveðinn vilja sem gengur gegn jöfnuði í mínum huga, í það minnsta þeirri hugsun sem ég hef alist upp við norður í landi þar sem gott er að vera.

Aðeins varðandi fjárfestingarverkefnin og stefnuna þá er talað um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu, að hugverkadrifinn iðnaður blómstri. Það er bara fullt að gerast í þeim geira og hefur verið að gerast á undanförnum árum. Við megum ekki tala niður til þess sem er, ég nefni bara Marel, Össur, sjávarútveg, þekkingariðnað á ýmsum sviðum. Það er fullt að gerast hérna.