141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:05]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstöðu á ekki að vera meinaður aðgangur að upplýsingum frekar en stjórnarliðum, það má ekki vera svo. Auðvitað á það að vera verkefni hv. fjárlaganefndar að verða sér úti um þessar upplýsingar með góðu og eftir atvikum illu. Eins og ég gat um fyrr í dag þá er það lykilþáttur í eftirlitshlutverki hv. fjárlaganefndar að hafa þennan aðgang að upplýsingum. Ég segi það bara einfaldlega hér og nú að það er viðkomandi ráðuneyti til minnkunar hvernig staðið var að þessu máli.

Ég vil hins vegar koma að jöfnunaraðgerðum. Það er fullvissa mín að þessi ríkisstjórn hafi valið leið jöfnuðar út úr hruninu. Þess sjást merki að álögur á efnaminnsta fólk í landinu hafa minnkað, álögur á efnamesta fólkið hafa aukist. Þessu hefur víða verið snúið við í nágrannalöndum okkar og nægir þar að nefna Íra sem lögðu hlutfallslega meiri álögur á efnaminnsta fólkið í landinu en efnamesta fólkið á leið sinni út úr hruninu. Þannig vinna menn sig ekki út úr hruni. Leið jafnaðar er alltaf affarasælust ef menn hafa á annað borð áhuga á því að byggja upp samfélag. Sam-félag. Hvað hefur þessi ríkisstjórn verið að gera í átt til jafnaðar sem aðrar ríkisstjórnir hafa ekki verið að gera? Við höfum verið að auka jöfnun húshitunarkostnaðar. Þess sést stað í fjárlagafrumvarpinu. Við höfum verið að auka jöfnuð íþróttafélaga sem þurfa að ferðast um langar leiðir til að keppa sín í milli. Við höfum verið að auka þann kostnað frá hruni og síðast en ekki síst vil ég beina orðum mínum sérstaklega til hv. þingmanns að það erum við í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem höfum loksins komið á flutningsjöfnuði. Það er eitthvað sem hægri flokkarnir í landinu höfðu engan áhuga á að koma á. (Forseti hringir.) Flutningsjöfnuður lækkar vöruverð hringinn í kringum landið og það er vinstri stjórnin sem (Forseti hringir.) kom honum á en ekki hægri stjórnin og það gat hún gert í kreppu.