141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum komin í 3. og síðustu umr. um fjárlagafrumvarpið. Nú fer þessu máli að ljúka.

Fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, var brattur í Fréttablaðinu í síðustu viku þegar hann tíundaði stórkostlegan árangur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Í bland við einhvers konar gamla sveitarómantík og ljóðlínur hrærði hann hagtölum sem standast ekki neina skoðun. Hæstv. ráðherra segir ríkisstjórnina og þá helst sjálfan sig, einan og óstuddan, ef marka má ummæli hans í Viðskiptablaðinu á dögunum, hafa snúið fjárlagahallanum úr 216 milljarða halla árið 2008 í áætlaðan 2–4 milljarða halla á næsta ári. Það væri vel að verki staðið ef rétt væri.

Árið 2008 var hallinn á rekstri ríkissjóðs um 24 milljarðar. Við þá tölu bættust síðan óreglulegir liðir, eða það sem kallað er einskiptistap sem nam um 192 milljörðum. Þá gríðarlegu upphæð má að mestu rekja til þess að kröfur á viðskiptabankana, sem voru að handveði í endurkröfuviðskiptum í Seðlabankanum, töpuðust að stórum hluta í hruninu auk þess sem tryggingabréf sem tryggingamiðlarar héldu töpuðust.

Svipuð staða er upp á teningnum hvað varðar fjárlögin á næsta ári þótt smærri sé. Ríkissjóður áætlar að það þurfi að greiða 13 milljarða til að styrkja eigið fé Íbúðalánasjóðs vegna taps sem annars vegar má rekja til þess að margir lántakendur geta ekki staðið í skilum með lán sín og hins vegar til þess að sjóðurinn getur ekki greitt upp skuldbindingar sínar þegar íbúðareigendur greiða upp lán við sjóðinn. Það myndar neikvæðan vaxtamun við Íbúðalánasjóð og sjóðurinn hefur því tapað miklum fjármunum vegna þess. Hæstv. ráðherra segir að þar sem þessir 13 milljarðar muni mynda eigið fé í Íbúðalánasjóði séu þetta ekki útgjöld fyrir ríkissjóð og því bæti framlagið ekki við halla ríkissjóðs. Þetta er óneitanlega frumleg nálgun.

Nú er það svo að í bókhaldi þar sem er kreditfærsla er debetfærslan ekki langt undan. Tap Íbúðalánasjóðs þarf að færa til gjalda hjá ríkissjóði, það er svo einfalt. Augljóst er að færsla ríkissjóðs í bókhaldi vegna taps Íbúðalánasjóðs er algerlega sambærileg við færsluna sem gerð var vegna taps Seðlabankans 2008. Hallinn á ríkissjóði á næsta ári verður því 15–17 milljarðar, ekki 2–4, þegar sömu uppgjörsaðferð er beitt og notuð var árið 2008. En þetta er bara byrjunin.

Áætlaður munur af eignum og skuldbindingum A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nemur um 54 milljörðum kr. Þetta gat myndaðist vegna taps lífeyrissjóðsins. Það þarf að fjármagna og eðlilegt væri að gera ráð fyrir tapinu í fjárlögum. Ef það er gert þá er hallinn á fjárlögum 69–71 milljarður á næsta ári en ekki 2–4 eins og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, heldur fram.

Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til þess að útgjaldaþrýstingur á ríkissjóð er gríðarlegur um þessar mundir og fer vaxandi. Engar líkur eru á því að ríkisútgjöld á næsta ári verði þau sem stefnt er að. Það er ekki lengur hægt að svelta heilbrigðisstarfsmenn eins og við sjáum til að mynda á því að á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga hafa sagt upp á Landspítalanum, löggæslan er komin niður fyrir hættumörk, getum við sagt, og þar þarf að bæta í og önnur grunnþjónusta hefur verið skorin of mikið niður án þess að um endurskipulagningu hafi verið að ræða.

Jafnframt er ekki tekið tillit til þess að 373 milljarða vantar í B-deild LSR. Ég er reyndar ósammála þeim sem telja að taka þurfi tillit til þeirrar upphæðar í fjárlögum þar sem B-deild LSR byggir á gegnumstreymisfyrirkomulagi, þ.e. að þeir sem eru á vinnumarkaði borga lífeyri fyrir hina eldri sem eru sestir í helgan stein.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að fjárlög næsta árs séu blekking og eigi miklum mun meira skylt við grískt bókhald en þau vönduðu fjárlög sem hæstv. ráðherra gumar stöðugt af. Það er mikilvægt að sópa ekki vandanum undir teppi eins og nú er gert.

Tekjusvið fjárlagafrumvarpsins er einnig í molum. Þar er gert ráð fyrir því að hagvöxtur verði 2,5% á næsta ári og hann verði að hluta drifinn af fjárfestingum í nýju hátæknisjúkrahúsi, sem er ekki gert ráð fyrir í útgjöldum í fjárlagafrumvarpinu, og stóriðju í Helguvík sem óvíst er að nokkuð verði af, að minnsta kosti ekki á næsta ári. Lægri hagvöxtur gefur minni tekjur fyrir ríkissjóð og leiðir til hærri gjalda vegna atvinnuleysis.

Þá er á tekjuhliðinni gert ráð fyrir nærri 8 milljarða arðgreiðslum ríkisfyrirtækja og tekna vegna sölu eigna. Það er alls óvíst að það nái fram að ganga, rétt eins og það náði ekki fram að ganga á þessu ári.

Samantekið má því sjá að forsendur fjárlagafrumvarpsins eiga sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Þar er sópað undir teppi augljósum útgjöldum og allar tekjur ýktar. Þetta er alvarlegt vegna þess að mikilvægasta verkefni stjórnmálanna í dag er að ná tökum á ríkissjóði og greiða niður skuldir. Skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs eru nú um 2 þús. milljarðar kr. og ríkissjóður þarf að borga nærri 90 milljarða í vexti á næsta ári af þeim. Vaxtaútgjöld ríkissjóðs er nú næststærsti útgjaldaliðurinn á eftir heilbrigðiskerfinu.

Ragnar Árnason prófessor tekur sama atriði fyrir og ég geri í ræðu minni í grein í Morgunblaðinu á dögunum. Þar segir Ragnar, með leyfi forseta:

„Hinn mikli hallarekstur ríkissjóðs undanfarin fjögur ár felur í sér verulega ógn við efnahagslega velferð íslensku þjóðarinnar á komandi árum. Framvinda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013 á Alþingi og reynslan af fjárlögum undanfarandi ár bendir því miður ekki til þess að nú séu að verða þau tímamót í glímunni við hallarekstur ríkissjóðs sem Steingrímur Sigfússon hefur kynnt. Þvert á móti bendir allt til þess að þessi síðustu fjárlög núverandi ríkisstjórnar muni skerða enn frekar það svigrúm sem þjóðin hefur til að losa sig úr skuldafjötrum og skapa hér velferð á varanlegum grunni.“

Svo mörg voru þau orð. Ef gripið er niður í grein Ragnars segir, með leyfi forseta:

„Það sem af er stjórnartíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. frá árinu 2009 og út þriðja ársfjórðung 2012, nemur samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs mældur á verðlagi hvers árs um 400 milljörðum kr.“

Ef við bætum við hallanum sem var 2008, 216 milljörðum, þá erum við komin í rúma 600 milljarða af þeim 2 þús. milljörðum sem ríkissjóður skuldar eða hefur tekist á hendur skuldbindingar og þá sérstaklega vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Áfram heldur Ragnar, með leyfi forseta:

„Þessi uppsafnaði halli hefur eðli málsins samkvæmt bæst við mjög alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs.“

Hann segir að þróun hinnar hreinu skuldastöðu sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu samkvæmt gögnum Hagstofunnar sé ógnvænleg. Skuldastaðan hafi vaxið hröðum skrefum og numið yfir 55% af vergri landsframleiðslu í árslok 2011. Vegna hallarekstrar ríkissjóðs á árinu 2012 hafi þessar skuldir enn aukist. Rétt sé að taka það skýrt fram að í þessum tölum vanti ýmsar þekktar skuldbindingar ríkissjóðs. Og áfram heldur prófessorinn, með leyfi forseta:

„Þessi mikla hækkun í hreinni skuldastöðu ríkissjóðs er mikið áhyggjuefni af að minnsta kosti þremur ástæðum.“

Í fyrsta lagi fylgir henni mikill vaxtakostnaður en eins og ég rakti áðan er sá vaxtakostnaður metinn vel í kringum 85 milljarða á næsta ári sem, eins og Ragnar segir, „rýrir getu ríkissjóðs til að sinna mikilvægum málefnum samfélagsins, þar með töldum velferðarmálum í framtíðinni.

Í öðru lagi bætast hinar auknu ríkisskuldir ofan á mjög erfiða skuldastöðu þjóðarinnar í heild. Þær veikja lánstraust þjóðarinnar út á við og hækka þar með vaxtakröfuna á Ísland erlendis. Skuldasöfnun íslenska ríkisins er að áliti sérfræðinga ein af helstu ástæðunum fyrir því að alþjóðleg matsfyrirtæki hafa ekki fengist til að hækka mat sitt á lánshæfi Íslands og skuldatryggingarálagið á ríkissjóð erlendis hefur sorglega lítið lækkað.

Í þriðja lagi er þessi mikla skuldasöfnun ríkisins bein ógn við getu þjóðarinnar til að komast með sæmilega heilli há út úr þeirri fjárhagskreppu sem hún hefur verið í. Áætlun sú um endurreisn íslensks efnahags sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin komu sér saman um í nóvember 2008 byggðist á tveimur meginstoðum: (i) myndarlegum hagvexti og (ii) aðhaldi í ríkisrekstri og hallalausum ríkisrekstri innan fárra ára. Þetta var í áætluninni talið forsenda fyrir því að Ísland kæmist út úr skuldakreppunni. Hagvöxtur hefur því miður reynst mun hægari en að var stefnt í þessari áætlun. Eins og rakið hefur verið hefur einnig verulega skort á að markmiðunum í ríkisfjármálum hafi verið náð.“

Það eru alvarleg tíðindi sem prófessorinn ber okkur í grein sinni. Fjárlagafrumvarpið er mikilvægasta frumvarp hverrar ríkisstjórnar. Þetta frumvarp er í skötulíki og ber þess vott að kosningar eru í nánd. Seðlabankinn hefur sérstaklega varað við slíku frumvarpi og ASÍ og Samtök atvinnulífsins bent á að þetta sé verðbólgufrumvarp sem leiða muni til hækkunar á lánum heimilanna og til hærri vaxta. Blekkingarnar í frumvarpinu eru svo grófar og málflutningur stjórnarliða um þá fögru mynd sem þar er upp dregin er svo bjagaður að ósjálfrátt koma upp í hugann bókhaldsæfingar bandaríska stórfyrirtækisins Enrons. Þetta er sannkallað Enron-frumvarp. Mikið og erfitt verk bíður þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við í apríl á næsta ári að leiðrétta þessi ósköp.