141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það kann vel að vera að hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni finnist næstu ríkisstjórnar bíði vandaverk þegar hún kemur að ríkisfjármálum með 3 milljarða kr. halla. Hvað mundi hv. þingmaður segja um þá aðkomu sem beið þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að skila af sér góðu búi með góðum fjárlögum og góðu fjárlagafrumvarpi, þegar hún tók við á árinu 2009 þegar hallinn á ríkissjóði var 260 milljarðar kr.? Það hefur ýmislegt gerst síðan, hv. þingmaður, sem betur fer.

Við skulum ekki tala sjálf okkur niður vegna þess að sá árangur sem náðst hefur hefur ekki verið án fórna hjá fólkinu í landinu. Það hefur verið erfitt, það hefur tekið í. Fólk hefur misst vinnuna, fólk hefur misst húsnæðið og fólk hefur þurft að þrengja að á alla enda og kanta. En það hefur skilað miklum árangri. Ég ætla að ræða einkum einn þátt í ríkisrekstrinum, mjög stóran þátt upp á 30 milljarða kr. á ári hverju, sem er Landspítalinn. Þar hefur tekist að snúa vörn í sókn.

Landspítalinn er dæmi sem ég held að við þurfum að horfa til núna þegar við getum fagnað því að tíma niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni er lokið. Búið sem við tókum við á árinu 2009, var í reynd gjaldþrota ríkissjóður. Það hefur tekið á og það hefur þurft að skera mikið niður. Að vísu var alltaf skorið niður helmingi minna í heilbrigðisþjónustunni en í öðrum ríkisrekstri, en nú er svo komið á árinu 2013 að við stöndum með fyrsta fjárlagafrumvarpið þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni og því ber að fagna. Hv. þingmaður ætti því ekki að segja að næsta stjórn taki við erfiðu búi í vor. Þvert á móti.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við tók hún við Landspítalanum með 2,8 milljarða kr. halla. 2,8 milljarðar í mínus var viðskilnaður ríkisstjórnarinnar, hrunstjórnarinnar, sem fór frá í ársbyrjun 2009. Á góðæristímunum svokölluðu, 18 árunum þar á undan, hafði alls ekki verið veitt fé til spítalans. Áherslurnar voru á tvennt; á einkavæðingu, einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni annars vegar og gjaldtöku hins vegar. Hver voru viðbrögð hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum við hruninu haustið 2008? Það var spítalaskattur. Mig minnir það hafi verið í kringum 600 millj. kr. sem átti að innheimta af sjúklingum sem lögðust inn á spítalann og áttu að borga fyrir hverja nótt. Það var að vísu samkvæmt ábendingum frá OECD, ef ég man rétt, að það væri náttúrlega engin hemja að hér væri ókeypis sjúkraþjónusta að fólk legðist inn á spítala og borgaði ekki neitt. Það voru ábendingarnar sem fram komu í skýrslunni frá OECD 2008 sem sagði þó að heilbrigðiskerfið á Íslandi væri öfundsvert og að aðrar þjóðir ættu að líta til þess með þeim augum. En það mætti bæta það, fannst þeim, og það mætti láta fólk fara að borga fyrir að leggjast inn á sjúkrahús.

Tekist hefur að reka Landspítalann hallalaust á árunum 2010, 2011 og það lítur út fyrir að það muni takast á árinu 2012. Búið er að skera niður á Landspítalanum um 12,5% ef litið er til þess grunns sem fjárlagafrumvarpið byggir á fyrir næsta ár. Það tókst að koma í veg fyrir að heilbrigðisþjónustan hryndi þó að efnahagskerfið hér væri á barmi hruns og þó að bankakerfið hryndi. Því er auðvitað fyrst og fremst að þakka framlagi og vinnu starfsmanna í heilbrigðisþjónustunni og stjórnenda heilbrigðisstofnana. Það verður aldrei of oft sagt að stjórnendur og starfsmenn Landspítalans eiga heiður og þakkir skilið fyrir þá miklu vinnu sem þar hefur verið lagt í með því að þrengja að, skera niður og spara í rekstrinum, en ekki verður lengra gengið í þá átt nema í nýju húsnæði. Það er öllum ljóst.

Núna er spítalinn rekinn á mörgum stöðum í Reykjavík. Tvær stærstu stofnanirnar eru annars vegar í Fossvogi og hins vegar við Hringbraut. Þar er allt keyrt á tvöföldu vaktakerfi með tvöföldum tilkostnaði fyrir utan að húsnæðið er í báðum tilfellum úr sér gengið og getur engan veginn tekið við þeim tækjakosti sem nauðsynlegur er ef spítalinn á að standa undir nafni sem miðstöð heilbrigðisþjónustu, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn alla og ekki bara það heldur sem vísindastofnun, kennslustofnun og rannsóknarstofnun. Við verðum að hlúa að spítalanum. Hann er einn stærsti vinnustaðurinn hér á suðvesturhorninu. Hann er ein fjölmennasta kennslustofnunin í landinu þar sem allar heilbrigðisstéttir ljúka námi sínu. Við verðum að hlúa að því. Við verðum að hlúa að spítalanum.

Hvernig var aðkoman, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi hér áðan? Hvernig var tækjakostur spítalans þegar þessi ríkisstjórn tók við á árinu 2009? Hann var ekki beysinn og var mjög erfitt að kaupa ný tæki vegna þess að á einni nóttu í hruninu tvöfaldaðist verð á öllum búnaði, því að hann er meira og minna innfluttur og var keyptur fyrir gjaldeyri. Það kom líka í ljós að allir þeir peningar sem ætlaðir voru til tækjakaupa voru fastir langt fram í tímann vegna þess að allt var keyrt á kaupleigu. Núna er viðsnúningur í þessum efnum. Af því að hv. þingmaður hafði af því áhyggjur að næsta ríkisstjórn tæki við slæmu búi vil ég nefna að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir tæpum milljarði kr. í tækjakaup fyrir Landspítalann, tæpum milljarði kr. Í meðförum þingsins hefur verið bætt við 600 millj. kr. í þann pott, sem voru eitthvað ríflega 300 millj. kr. þegar frumvarpið kom hingað inn, þannig að á milli 900 millj. og 1.000 millj. kr.geta farið í tækjakaup á Landspítalanum. En eins og ég sagði áðan tel ég að það sé kannski ekki hægt að kaupa þau góðu, dýru tæki sem mest þörf er á vegna þess að það gamla húsnæði sem spítalinn er í þolir það ekki, býður ekki upp á það. Þau passa ekki inn. Það er ekki hægt að hafa það þannig.

Tímabili niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni er lokið með þessu frumvarpi og því ber að fagna að mínu viti. Tímabil uppbyggingar er hafið og það staðfestist í þeim tölum sem ég hef nefnt um möguleika spítalans til að kaupa ný tæki, snúa vörn í sókn, eins og gerst hefur í ríkisfjármálunum almennt, úr 260 milljarða halla í 3 milljarða kr. hjalla.

Undirbúningur að byggingu nýs spítala hefur nú staðið í áratug eða lengur. Eftir hrun voru áformin sem þá voru uppi og höfðu verið undirbúin af byggingarnefnd á árinu 2007 og 2008 skorin niður um um það bil fjórðung, um 25%. Þá voru menn að reyna að sníða sér stakk eftir vexti. Ég var svo heppin að fá að koma að því verkefni sem heilbrigðisráðherra á árunum 2009 og 2010 og ég undirritaði fyrir hönd ríkisins samning við lífeyrissjóðina á sínum tíma um fjármögnun á því mikla verki sem er nýbygging spítalans. Ég hratt af stað samkeppninni um hönnun spítalans sem fram fór á árinu 2010. Nú vill svo vel til að í dag voru verklok í þeim efnum, að SPITAL-hópurinn sem vann þá samkeppni skilaði af sér í dag frumhönnun að öllum byggingum sem áformaðar eru samkvæmt nýsamþykktu deiliskipulagi á Landspítalalóðinni. Nú er svo komið að hægt er að fagna þeim áfanga. Frumhönnuninni er lokið, deiliskipulaginu er lokið og við stöndum svo hér og getum sagt að við tökum næsta skref á árinu 2013. Hvað skyldi það vera?

Ég neita því ekki að ég átti von á því þegar ég fékk greinargerð með fjárlagafrumvarpinu og las þar á bls. 58, að áætlun og áfangaskipting framkvæmdarinnar yrði lokið fyrir 3. umr. fjárlaga. Það gekk ekki eftir og voru það mér ákveðin vonbrigði. En eftir sem áður er í 6. gr. fjárlagafrumvarpsins áfram heimild sem er nr. 7.6, með leyfi forseta:

„Að veita Nýjum Landspítala ohf. skammtímalán vegna undirbúnings hönnunar nýs Landspítala við Hringbraut.“ Áfram verður því haldið þar. Það er þvert á það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði í umræðu í fyrradag, þ.e. að ekki væri áætlun fyrir áframhaldandi framkvæmdum á undirbúningi á vegum nýs Landspítala ohf.

Það sem ég vísa í að sé breyting og framhald á málinu er að finna í yfirlýsingu ríkisstjórnar frá 30. nóvember síðastliðnum þar sem hæstv. velferðarráðherra og fjármálaráðherra lögðu fyrir ríkisstjórn minnisblað um hvernig staðið skyldi að gerð þessarar framkvæmdaáætlunar og fjárfestingaráætlunar á næstunni. Það endurspeglast í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar á þskj. 693 þar sem fram kemur að vegna breyttra aðstæðna sé ekki endilega víst og rétt að fara þá leið sem ákveðin var eftir hrunið á árinu 2010, að setja allt í alútboð og fara hina svokölluðu leiguleið. Margt hefur breyst á þeim tíma en það sem hefur þó sérstaklega breyst er aðstaðan í ríkisfjármálunum. Forsendur hafa breyst gersamlega frá því að ríkið gat ekki með nokkru móti tryggt það á árunum 2009 og 2010 að hægt væri að setja inn í fjárfestingaráætlun framkvæmd eins og þessa, sem samkvæmt greinargerð með fjárlagafrumvarpinu er upp á 45 milljarða kr. en ekki 72, eins og segir víst í Morgunblaðinu í dag, ég les það ekki sjálf en mér var sagt það. Og þarna er um að ræða um 2.100 ársverk.

Það er ekki auðvelt að koma því fyrir í ríkisfjármálunum á árinu 2009 og 2010. En nú hefur öll sú aðstaða breyst og allar þær forsendur. Nú er svo komið að færi eru til að gera þessa framkvæmd að venjulegri opinberri framkvæmd, þ.e. kjarnabygginguna, stóru byggingarnar, rannsóknarhúsið og meðferðarkjarnann. Eftir sem áður er möguleiki á því að taka minni byggingarnar, sem áttu að vera upphaf framkvæmdanna, annars vegar sjúkrahótel og hins vegar skrifstofu- og bílastæðahús, og hafa það í einkaframkvæmd. Það er von mín, og ég segi það þegar ég stend hér, að við getum byrjað á því á næsta ári sem og því að undirbúa lóðina fyrir framkvæmdir við kjarnabyggingarnar.

Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er vísað til þessa minnisblaðs og menn hafa kvartað undan því að hafa ekki séð það. Ég hef ekki séð það en ég kvarta ekkert sérstaklega undan því, því að ég tek mark á því sem segir hér í þingskjali 693, í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þar eru fyrirheit um að í næsta mánuði, janúarmánuði, verði lagt inn í þingið frumvarp um nýtt fyrirkomulag á fjármögnun þessarar miklu framkvæmdar. Gefin eru fyrirheit um að hægt verði að fara þar blandaða leið, í opinbera framkvæmd annars vegar og í einkaframkvæmd hins vegar við litlu húsin tvö. Með slíku frumvarpi kemur væntanlega fjárfestingaráætlun til lengri tíma og framkvæmdaáætlun um það hvernig standa megi að því strax á næsta ári og svo áfram. Það er mjög mikilvægt ef við horfum áfram til hagræðingar og í heilbrigðisþjónustu okkar og ríkisrekstri að muna að það er gríðarlega dýrt að gera ekki neitt í þessum efnum. Áætlað hefur verið að um 2,5 og jafnvel 3 milljarðar á ári sparist við það að flytja í nýtt húsnæði í stað þess að vera með rekstur spítalans úti um allan bæ.

Eins og ég segi hafa aðstæður gerbreyst og nú eru breyttar forsendur. Vonandi verður kallað eftir því strax í janúarmánuði að við þingmenn komum að því að finna nýja leið til fjármögnunar og framkvæmda við þetta stóra verkefni. Það skiptir máli að við séum öll um borð. Þess vegna var ég hálfvonsvikin þegar ég heyrði hv. þm. Kristján Þór Júlíusson tala um fyrir nokkrum dögum að hér væru einhvers konar brigð á samkomulagi vegna laga nr. 64/2010. Það eru ekki meiri brigð en svo að í þeim lögum er talað um að málið komi aftur fyrir Alþingi. Við skulum þá taka vel á móti málinu þegar það kemur hingað í janúar og vinna það í sameiningu þannig að þetta mikla verkefni sigli ekki í strand. Ég treysti því að menn fari ekki einhverjar pólitískar uppboðsleiðir í tilefni af því að það eru að koma kosningar. Við verðum að ná að standa saman um þetta verkefni óháð því, fulltrúar allra flokka á Alþingi og allra landsmanna, vegna þess að þetta er spítali allra landsmanna. Þetta er kennslustofnun allra landsmanna og rannsóknarstofnun allra landsmanna. Þetta er flaggskip okkar í heilbrigðisþjónustunni. Landspítalinn hefur á undanförnum vikum, mánuðum og missirum fengið bestu einkunn fyrir meðferð á erfiðustu sjúkdómum og slysum og hefur skorað mjög hátt í samanburði við önnur háskólasjúkrahús og rannsóknarstofnanir. Við eigum að þakka fyrir það og við eigum að hlúa að því.

Við skulum ekki gleyma því þegar menn deila um hvar setja eigi niður Landspítalann að tekin var ákvörðun um að setja þar niður barnaspítala. Barnaspítali Hringsins er nýjasta spítalabyggingin okkar. Það er hátæknisjúkrahús fyrir börn og þar er í rauninni sú besta aðstaða sem völ er á og við eigum ekki að flytja hana í burtu. Við eigum að byggja upp í kringum það eins og nú hefur verið gerð tillaga um vegna þess að barnaspítalinn þarf bakland, hann þarf skurðstofur, rannsóknarstofur og tengingu við aðrar greinar í heilbrigðisþjónustunni sem er að finna í Landspítalanum í heild.

Ég ætla ekki að tala mikið meira um Landspítalann. Ég fagna þeim áfanga sem náðist í dag. Ég fagna því að búið er að samþykkja deiliskipulagið og ég fagna því að hér liggur fyrir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar hvert framhaldið verður og treysti því að við munum standa saman um það.

Mig langar líka til að fagna lítilli fjárveitingu upp á 15 millj. kr. Hún lætur ekki mikið yfir sér. Hana er að finna í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar og ég treysti því að allir fjárlaganefndarmenn standi að þeirri tillögu. Hér er gerð í lið 08-373 Landspítali, nýframkvæmdir, tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til undirbúnings nýrrar byggingar endurhæfingardeildar Grensáss. Það tel ég gríðarlega mikilvægan áfanga. Það eru ekki stórir peningar en það er viðurkenning á því að þarna þarf að fara í byggingarframkvæmdir. Á árinu 2009 var safnað sérstaklega fyrir nýrri endurhæfingardeild, viðbyggingu við Grensás. Húsnæðið þar er úr sér gengið, aðstaðan er mjög erfið. Þar er ekki bara legupláss heldur fer endurhæfingin fram á göngum. Hollvinir Grensáss söfnuðu yfir 100 millj. kr. á árinu 2008 frekar en 2009 með átakinu Á rás fyrir Grensás. Það skiptir máli að fjárveitingavaldið, að heilbrigðisyfirvöld sjái sóma sinn í því, verð ég að segja, að hrinda þessu verkefni af stað.

Vegna þess að ég hef talað um nýjan Landspítala megum við ekki gleyma því að endurhæfing er ekki inni í kjarnabyggingunni, hún er ekki inni í nýjum Landspítala. Hún þarf að vera áfram á Grensás. Þess vegna er mikilvægt að hér sé komið fjárframlag til að hrinda af stað undirbúningi formlega við nýbyggingu við Grensás, nýrri endurhæfingardeild þannig að Grensás geti áfram þjónað fólki sem virkilega þarf á því að halda að komast aftur á fætur, út í atvinnulífið. Það held ég að eigi að vera sameiginlegt markmið okkar og við eigum að vinna að því með lífeyrissjóðunum sérstaklega og með hollvinum Grensáss að koma þeirri starfsemi upp, að koma nýju þaki yfir hana.