141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla að dvelja við það mál sem hv. þingmaður talaði mest um sem snýr að byggingu nýs Landspítala og þá pólitísku samstöðu sem er mikilvæg til að það mál geti haldið áfram og gerði smávægilegar athugasemdir við þær kröfur sem minni hlutinn hefur gert í sambandi við upplýsingagjöf en ég ætla ekki að staldra neitt við það sérstaklega.

Hv. þingmaður vitnaði í minnisblað sem var lagt fram á ríkisstjórnarfundinum 30. nóvember. Hv. þingmaður rakti líka það samkomulag sem var gert þverpólitískt í fjárlaganefnd á sínum tíma um það hvernig bæri að vinna áfram að málinu og þá verð ég að segja að það er ekki gott innlegg inn í áframhaldandi vinnu að meina minni hlutanum um þær upplýsingar sem var kallað eftir í hv. fjárlaganefnd til að sjá hvað er að gerast. Nú er búið að tvískipta framkvæmdinni. Annars vegar að fara svokallaða leiguleið með þær þrjár byggingar sem hv. þingmaður nefndi og hins vegar að fara í ríkisframkvæmd með hina leiðina, en þessar upplýsingar höfum við ekki fengið í hv. fjárlaganefnd, alla vega ekki minni hlutinn.

Það er auðvitað eðlileg spurning til hv. þingmanns þar sem hv. þingmaður kallar einmitt eftir samstöðu hvort það væri ekki eðlilegur farvegur sem snýr að því.

Hvað síðan snýr að framkvæmdinni sem slíkri — og hv. þingmaður gerði athugasemdir við það að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefði sagt hér í ræðu í gær að það væri ekki heimilt, hv. þingmaður vísaði til 6. greinar heimildar — þá er líka ágætt að rifja upp að fjárveitingin inni í 6. greinar heimildinni er 320 millj. til allra þeirra verka sem þar eru. Auðvitað gerum við ekki mikið fyrir þá upphæð.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að halda eigi áfram með þetta verkefni þannig að það lendi ekki í einhverju pólitísku argaþrasi en þá er mikilvægt að við höldum þeirri vegferð sem við lögðum af stað með og erum þá ekki að reyna að halda upplýsingum frá minni hlutanum um það hvernig á að standa að verkinu.