141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um þetta. Það er ekki búið að taka neina ákvörðun fyrr en Alþingi hefur tekið hana. Ef staðan er þannig að menn telja að það muni ekki berast nein tilboð í þetta alútboð og það verði of dýr leið, er þá ekki rétt að við stöldrum við og skoðum það sem fram kemur? Það er greinilegt að ekki náðist að koma fram með tillögu fyrir 3. umr. fjárlaga eins og menn ætluðu sér þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 11. september sl. og má lesa á bls. 58 í greinargerð með frumvarpinu sem ég hef nokkrum sinnum vitnað til.

Það er boðuð stefnubreyting með minnisblaði sem var lagt fyrir ríkisstjórn 30. nóvember sl. Í meirihlutaáliti frá hv. fjárlaganefnd er sú stefnubreyting kynnt. En það er jafnframt boðað að lagt verði fram frumvarp þar um í janúar og fyrr en það frumvarp hefur verið lagt fram, meðhöndlað, afgreitt og ég vona samþykkt hefur engin ákvörðun verið tekin. Engin önnur en sú sem var tekin á sumrinu 2010 um að fara leiguleiðina. Þá var áskilið að málið skyldi koma aftur hingað inn til þingsins til frekari skoðunar áður en farið yrði í útboð á framkvæmdinni. Nú er allt tilbúið til þess. Nú er skipulagið komið, nú er frumhönnunin komin og nú væri þess vegna hægt að fara í þetta alútboð og í þessa leiguleið, en menn telja hana ekki réttu leiðina núna miðað við aðstæður. Forsendur hafa breyst og eigum við þá ekki að staldra við og skoða þetta í sameiningu í stað þess að dæma fyrir fram að málið sé dautt?