141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu. Ég hefði alveg eins átt von á því að menn kæmu með skilti og lýstu yfir ánægju með málflutninginn um fjárlögin að þessu sinni í tilefni þess hvernig gekk á sínum tíma. Það skiptir ekki máli hvernig menn reyna að snúa sig út úr þessari stefnubreytingu, þ.e. þeirri ákvörðun sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið varðandi áformin um Landspítalann. Það er ljóst að ríkisstjórnin er að vinna að framgangi þess máls á öðrum grunni en greinir í lögum, nr. 64/2010, um þetta verkefni.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að alltaf þegar við eigum við svo erfiða stöðu að glíma eins og ríkissjóðurinn er í er spurning um forgangsröðun. Að sjálfsögðu er spurning um forgangsröðunina. Við höfum gagnrýnt og reynt að sinna skyldu okkar í því að veita ríkisstjórnarflokkunum aðhald í þessu verki.

Ég ætla að nefna hérna eitt dæmi um forgangsröðunina: Nú sjáum við að til þess að bæta úr fjárskorti löggæslunnar í landinu er komin tillaga um 200 millj. kr. aukningu fjárveitinga, þó að mat manna sé að þær þurfi að vera nær 300 millj. kr. Það kostaði 200 millj. kr. að sækja einn mann fyrir landsdómi. Það kostar verulegar fjárhæðir að vinna í breytingum á Stjórnarráðinu. Það kostar verulegar fjárhæðir að vinna í breytingum á stjórnarskránni o.s.frv. Það er hægt að tína til pólitískar áherslur og segja: Hefði ekki verið betra að verja velferðina, löggæsluna og fleiri þætti en að fara þá leið sem núverandi stjórnarmeirihluti fór? Það er ekkert skrýtið þó að harður pólitískur ágreiningur hafi verið um slík mál, ekki síst þegar menn voru dottnir í (Forseti hringir.) að persónugera þetta í einum manni.