141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi fyrri hluta af svarinu um Landspítalann erum við sammála. Það sem við lögðum áherslu á, ef gera ætti þessa grundvallarbreytingu á ferli málsins, er að eðlilegt hefði verið, eins og um var rætt og ég taldi samkomulag um, að koma með málið til fjárlaganefndar aftur, ræða það í því pólitíska umhverfi og þá breytingu sem menn sæju fyrir sér að yrði að verða á málinu. Það er það sem við höfum lagt áherslu á. Það tengist meðal annars því sem við höfum sett fram, 1. minni hluti fjárlaganefndar, varðandi þær stærðir sem standa utan fjárlaga og við höfum áætlað af vanefnum, eins og við höfum sagt, vegna þess að okkur skortir vissulega upplýsingar. Við höfum áætlað að að lágmarki þurfi um það bil 15–20 milljarða til gjalda í áætlunina sem muni auka hallarekstur ríkissjóðs. Ef við ætlum að feta þá leið með landspítalabygginguna að fara með hana sem opinbera framkvæmd þá tefur þessi kostnaður að það verk, ef menn kjósa að fara í það, verði að veruleika. Þess vegna leggjum við áherslu á að taka með þá útgjaldapósta sem við reiknum með að muni koma í uppgjörinu í ríkisreikningnum, en ekki af einhverri ósanngirni eða öðru því um líku. Við horfum til þessara mála með það í huga að gera okkur sem best grein fyrir stöðunni. Ég skal vera fyrstu manna til að viðurkenna að það hefur gengið fremur illa, fyrst og fremst vegna skorts á tíma til að vinna með þær tillögur sem hafa komið fram.

Ég sakna þess með sama hætti og hv. þingmaður sem nefndi að það skorti pólitíska umræðu. Það er tvennt sem veldur því. Við fáum tillögur frá ríkisstjórninni allt of seint. Sömuleiðis bið ég hv. þingmann að svara mér því hvort honum þyki það svar (Forseti hringir.) sem við fengum 10. desember frá fjármálaráðuneytinu, þegar fjárlaganefnd var að leita eftir upplýsingum frá því ágæta ráðuneyti, vera Alþingi samboðið?