141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:03]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mörgu leyti er gott að heyra að við erum sammála um þær lykiláherslur sem við viljum sjá í landspítalamálinu og að það þurfi að koma skýr lína í það sem allra fyrst. Í mínum huga er alveg ljóst að miðað við þær aðstæður sem eru uppi núna þurfum við að fara yfir málið og taka ákvörðun um næstu skref og framhaldið. Sú umræða má ekki verða til þess að tefja þann framgang sem við viljum í málinu.

Varðandi pólitísku áherslurnar geri ég mér alveg grein fyrir því og upplifi auðvitað í pólitísku starfi mínu að það verður seint samstaða um öll atriði í einstökum þáttum sem lúta að því sem greinir okkur í sundur í pólitískum áherslum og stefnumálum. Það eru mörg stór lykilatriði sem skipta máli til að hægt sé að ná breiðri samstöðu, ekki síst í þeirri stöðu sem við höfum verið með íslenskt samfélag á undanförnum árum. Ég er alveg sannfærður um að árangurinn sem hefur náðst víða í sveitarfélögum hringinn í kringum landið, þar sem þau eru að rétta úr kútnum, hefur verið vegna þess að menn hafa náð að taka höndum saman um mörg lykilatriði þó að ágreiningur hafi verið um annað sem minna máli skipti.

Það sem snýr auðvitað að okkur er hvernig menn ætla að sigla hér fram til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Hvernig ætla menn að ná saman um hvernig eigi að standa að niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs? Hvar eru þolmörk þjónustu og velferðar? Hvernig á að haga lykiláherslum í skattkerfi? Þetta eru auðvitað atriðin sem menn eiga að reyna að standa saman um og ná samstöðu um.

Um upplýsingamál, sem hv. þingmaður vék að áðan, vil ég segja: Ég hef verið málsvari þess að það eigi að vera opinn aðgangur að upplýsingum. Ég barðist fyrir því sem formaður (Forseti hringir.) Blaðamannafélags Íslands um áratugaskeið. Ég er enn sömu skoðunar. Ég mun fylgja eftir (Forseti hringir.) því frumvarpi sem er á dagskrá um breytingar á upplýsingalögum til að auka og styrkja (Forseti hringir.)