141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög sérkennileg svör hjá hv. þingmanni. Það sem ég var að benda á í andsvari mínu var þessi forgangsröðun. Ég fór margoft yfir það í 2. umr. fjárlaga sem hv. þingmaður tók sérstakan krók fram hjá og kallaði málþóf. Það var verið að kalla eftir því að fjármagn færi í grunnþjónustuna á þessum stöðum. Þess vegna sagði ég það þegar hv. þingmaður nefndi sérstaklega að verið væri að ráðstafa þessum auknu veiðigjöldum í þau verkefni sem þarna voru talin upp sem og mörg önnur.

Þetta snýst nefnilega um forgangsröðun fjármuna og meðan ríkisstjórnin og stjórnvöld geta ráðstafað hundruðum milljóna kr. í alls konar gæluverkefni, að mínu viti, og á sama tíma ekki haft heilsugæslustöðvarnar opnar á þeim stöðum sem er verið að taka veiðileyfagjaldið af er manni auðvitað misboðið, öllum íbúunum er misboðið. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að hér sé kallað eftir því að það sé rökstutt að kalla einhver verkefni gæluverkefni þegar maður gerir það efnislega. Svo er snúið út úr því og sagt: Það verður að horfa á heildarmyndina. Það er akkúrat það sem við köllum eftir að sé gert. Það gefur augaleið, og það veit hver þingmaður, að ef ekki er grunnþjónusta í þessum byggðum eins og öðrum þá þarf enga þjónustu í þeim. Það er auðvitað mjög dapurlegt og þá líta íbúar á þeim svæðum á sig sem einhvers konar vinnudýr fyrir ríkissjóð.

Þetta er fólkið sem skapar verðmætin, vinnur við sjávarútveginn og gerir hluti til að skaffa tekjur í ríkissjóð. Samt sem áður er farið í svona uppbyggingar, rugl og vitleysu, á sama tíma og heilsugæslustöðvunum er lokað. Þetta snýst um forgangsröðun og fagleg vinnubrögð og því höfum við verið að kalla eftir en ekki að menn snúi svona út úr eins hv. þingmaður reyndi að gera í svari sínu áðan.