141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er gott að heyra að við erum sammála, ég og hv. þingmaður, um að besti mælikvarðinn á þann árangur sem við þurfum að ná séu hinar hreinu skuldir ríkissjóðs. Það er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir, það er sú stærð sem við þurfum að ná niður. Þess vegna hef ég haft ákveðinn fyrirvara við þá umræðu þar sem gefið er til kynna að við séum að komast á einhvern lygnan sjó því að sá mælikvarði sem hreinar skuldir ríkissjóðs eru, nettóskuldir, gengur í öfuga átt við allt það tal sem maður heyrir frá hv. stjórnarliðum. (BJJ: Nei, nei.) Hreinar skuldir ríkissjóðs voru rétt rúm 20% árið 2008. 2009 voru þær 40%, 2010 voru þær 48% og 2011 voru hreinar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 55%. Því miður er staðan svona.

Það er óumdeilt að hallinn á fjárlögum hefur verið að dragast saman og það er vissulega fagnaðarefni, en varúðarmerkin eru til staðar og það er algerlega óásættanlegt að menn tali á þeim tímum sem nú eru um að við séum komin fyrir vind. Það er ekki þannig, því miður. Við eigum ærin verkefni eftir og því miður er veruleikinn sá, hverju svo sem um er að kenna, að ósamræmið á milli fjárlaga og ríkisreiknings gefur það til kynna að við höfum ekki náð fullri stjórn á ríkisfjármálum. Við verðum að gera betur. Mér finnst það birtast ágætlega í þeirri nöturlegu staðreynd að hreinar skuldir hafa vaxið ár frá ári sem hlutfall af landsframleiðslu öll síðustu ár.