141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að draga úr því að menn þurfi að sýna aðhald og ábyrgð í ríkisrekstri áfram, en menn mega nú gleðjast á ákveðnum áningarstöðum. Það er ákveðinn áningarstaður að vera búin að ná þessu marki núna, við fjórðu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Ég gleðst yfir því.

Ég undrast það hvernig sjálfstæðismenn, sem talað hafa undanfarnar vikur og mánuði fyrir skattalækkunum, sjá það samræmast því að við ætlum að halda áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs. (Gripið fram í.) Hvaðan eiga þá fjármunirnir að koma ef þeir eiga ekki líka að koma í gegnum skatta frá okkur sjálfum sem búum í þessu landi og þeim deilt niður á fólk og fyrirtæki eftir efnum og ástæðum? Það er aðalsmerki vinstri stjórna, félagshyggjustjórna, að gera það með þeim hætti. Menn borga eftir getu en ekki eins og sjálfstæðismenn hafa verið að predika, þ.e. með því að lækka skatta. Hver á þá að borga brúsann? Hvar er ríkissjóður þá staddur ef ekki koma tekjur í kassann?

Einhvers staðar verða menn að fá tekjurnar. Á þá að láta almenning borga sig inn á sjúkrahúsin eins og byrjað var að gera hér fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar með gjaldtöku? Á að láta fólk borga kostnaðinn sem mest sjálft? Við höfum verið að reyna, þó að þetta hafi verið erfiðir tímar, að snúa af þeirri braut að menn greiði með sköttum sínum inn í velferðarkerfið svo almenningur geti notið þess í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) og eins og núna, að vinna að því að hafa tannlækningar fríar fyrir (Forseti hringir.) börn.