141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga í 3. umr. og verður að viðurkennast að það eru ákveðin vonbrigði, þó að það séu ljósir punktar inni á milli, að ekki hafi tekist að gera meiri breytingar en hér koma fram. Við sjáum það líka á ræðum stjórnarþingmanna að raunveruleikinn virðist ekki alveg ljós mörgum hv. þingmanninum í stjórnarliðinu þar sem þeir berja sér hér á brjóst og segja að þetta séu góð fjárlög og að það sé margt í þeim sem horfi til betri tíðar. Þá gleyma þeir því að grunnurinn sem er undir fjárlögunum, tekjuöflunin, er veikur og mun væntanlega ekki ganga upp. Þar af leiðandi munu draumarnir sem hér eru ekki ganga eftir.

Það eru nokkur atriði sem gera það að verkum að þetta mun ekki ganga upp. Í fyrsta lagi, þegar ráðamenn ríkisstjórnarinnar lýstu því yfir að kreppan væri búin var alla vega einn fyrrverandi ráðherra, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sem áttaði sig á því að það væri ekki rétt og kom og leiðrétti það, hann sagði að kreppan væri ekkert búin. Við erum ekki farin að sjá fyrir endann á kreppunni og hún mun hafa áhrif á grunninn. Metnaðarleysi ríkisstjórnarflokkanna til að auka tekjur ríkissjóðs með öðru en skattahækkun og skattpíningu á verkafólk í landinu mun á endanum koma í bakið á okkur öllum. Metnaðarleysið felst í því að fjölga ekki störfum og skapa ekki atvinnulífinu tækifæri til að vaxa og eflast.

Svo mætti áfram. En svo koma ræðumenn hér, þingmenn stjórnarflokkanna, og hæla sér af því að hafa varið heilbrigðiskerfið og segja jafnvel að fyrr á tíðum hafi staðið til að sjúklingar borguðu sig inn á sjúkrahúsin, en þá voru þó sjúkrahús, hér var þó heilbrigðisþjónusta sem hægt var að vera nokkuð stoltur af. Nú er búið að skera heilbrigðisþjónustuna víðast það mikið niður að hún er hvorki fugl né fiskur, því miður.

Hér tala menn um árangur í hagstjórn. Það kann vel að vera að einhver batamerki sjáist einhvers staðar. Þó það nú væri eftir fjögur ár að einhver batamerki sjáist, en hver er það sem borgar brúsann fyrir þessa ríkisstjórn? Það er að sjálfsögðu fólkið í landinu, það eru heimilin. Það er ekki búið að ráðast á þann mikla vanda sem skuldir heimilanna eru, það er ekki búið að höggva í atvinnuleysið svo neinu nemi. Fólk hefur flutt til útlanda í stórum stíl. Skólarnir eru sem betur fer fullir af fólki sem fer nú bráðum að útskrifast. Stór hluti af því fór í nám í hruninu en hvað tekur við? Það vantar störf fyrir þetta fólk. Áfram verða væntanlega lagðar álögur á fólkið í landinu, á verkalýðinn, eins og þessi ríkisstjórn hefur haft að markmiði.

Svo ræða menn hér um að ekki sé hægt að auka tekjur ríkissjóðs nema með sköttum, sem er fráleitt að halda fram. En það hefur hins vegar verið aðalsmerki þessarar ríkisstjórnar að hækka skatta og vera mjög hugmyndarík í að auka skattheimtu eða finna upp nýjar leiðir til þess í stað þess að reyna að finna jafnvægi milli þess sem talist getur eðlilegur skattur og þess að fyrirtækin fái svigrúm til að vaxa, auka tekjur sínar, fjölga störfum, ráða fólk til vinnu og svo framvegis.

Sú skattpíningarstefna sem hér er rekin er í raun allt að drepa, það er ekkert jafnvægi á milli þessara leiða, á milli þeirra sem vilja skattpína allt og þeirra sem vilja enga skatta. Þarna þarf að vera jafnvægi á milli og það jafnvægi hefur ekki fundist og mun örugglega ekki finnast á þeim dögum sem þessi ríkisstjórn á eftir.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að það er mikilvægt fyrir ríkissjóð að auka tekjur sínar og það verður ekki gert með frekari skattheimtu því að fólkið og fyrirtækin í landinu þola ekki meiri skatta, þola ekki frekari skattahækkanir. Ríkissjóður ber kringum 84 milljarða króna í vaxtakostnað. Til þess að vinna hann niður verður ekki leitað frekar í vasa launþega eða annarra þegna landsins, enda hefur komið í ljós að stærsta fjöldahreyfing landsins, Alþýðusamband Íslands, hefur gefist upp á ríkisstjórninni. Hún hefur lýst frati á ríkisstjórnina og verk hennar. Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að ríkisstjórn mundi fá slíka umsögn og slíka útreið hjá verkalýðshreyfingu, fyrsta hreina vinstri stjórnin í sögu landsins, þegar hún komst loksins að. Þá gerist hvað? Þá missir hún trúnað verkalýðsins.

Það er grafalvarlegt mál þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar fara fram með þeim hætti sem hæstv. efnahags- og nýsköpunarráðherra gerði gagnvart forustu Alþýðusambands Íslands. Það er og verður blettur á sögu þingsins því að að sjálfsögðu áttu menn að setjast niður og segja: Er það eitthvað sem við getum lagað? Er eitthvað sem við getum náð saman um? í stað þess að fara fram með hnefann á lofti, sem gert hefur það að verkum að Alþýðusambandið hefur sagt að ekki verði rætt frekar við þessa ríkisstjórn, og bíður eftir kosningum. Samtök atvinnulífsins hafa tekið í sama streng. Allt gengur þetta út á það sama, svikin loforð og svikin loforð.

Virðulegi forseti. Það sem er brýnast á næstu misserum, á næstu árum er að einhenda sér í að efla atvinnulífið, fjölga störfum, efla hagvöxt þannig að hér verði til framleiðni, svo hér verði farið að framleiða vörur og þjónustu, selja úr landi, skapa gjaldeyri þannig að til verði tekjur til þess að byggja upp öflugt velferðarkerfi. Velferðarkerfið verður ekki byggt upp með þeirri aðferð sem þessi ríkisstjórn hefur stundað, það er alveg ljóst. Það eru verkefni næstu ára, þ.e. að ráðast á atvinnuleysið, fjölga störfum, það verða verkefnin sem bíða okkar.

Ég spái því að þegar líður að kosningum verði kosið um það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið sig í efnahagsmálum, hvernig hún hefur staðið sig gagnvart heimilunum, gagnvart fjölskyldunum og gagnvart því góða fólki sem byggir Ísland. Sú framtíð er ekki björt, hvað þá þegar ríkisstjórnin nýtur stuðnings Bjartrar framtíðar, þá er það alveg ljóst að það er frekar dökkt yfir en hitt.

Fjárlagafrumvarpið sem ég gagnrýni hér ber þess merki að verið er að reyna að klóra í bakkann rétt fyrir kosningar. Nú á að fara fram með stóru loforðin, nú er farið fram með fjárfestingaráætlun sem samin var af ríkisstjórnarflokkunum og stuðningsflokki ríkisstjórnarinnar, Bjartri framtíð. Nú á að fara fram og reyna að tryggja áframhaldandi setu með einhverju sem kallað er fjárfestingaráætlun. Það kann að vera að hægt sé að skilgreina eitthvað af þeim hlutum sem fjárfestingar, en að mínu viti er verið að breyta um nöfn á ákveðnum hlutum. Fæst af því sem þar er mun skila verulegum tekjum til ríkissjóðs heldur fyrst og fremst auka kostnað. Það þýðir ekki að þetta séu endilega slæmir hlutir en það eru mikil mistök að mínu viti að ráðast í marga þeirra á þessari stundu. Það gildir að sjálfsögðu ekki um alla.

Vonbrigðin yfir því að sjá hversu litlar breytingar eru gerðar hér á stórum hlutum í fjárlagafrumvarpinu á milli umræðna gera það að verkum að það er nánast útilokað að leggja fram grundvallarbreytingar á málinu. Frumvörpin eru náttúrlega ekki komin hér til umræðu, þau eru enn í nefnd, fyrir utan það að þau virðast vera byggð á mjög veikum grunni.

Frú forseti. Ég ætla að láta þessu lokið hér. Ég vona svo sannarlega að við munum geta breytt þessu með einhverjum hætti í atkvæðagreiðslu á morgun því að þetta getur ekki gengið svona fyrir okkar góðu og kröftugu þjóð.