141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í umræðum um fjárlög ársins 2013 hafa komið fram fjölmargar ábendingar um alvarlega galla á fjárlagafrumvarpinu, raunar svo margar að ég hef ekki tölu á þeim lengur. Það hefur m.a. verið bent á að mjög stórir fyrirsjáanlegir útgjaldaliðir sem munu óhjákvæmilega falla til á árinu 2013 sjáist hvergi í fjárlagafrumvarpinu, þeim hafi einfaldlega verið sleppt. Það er væntanlega gert viljandi, því þrátt fyrir þessar ábendingar hafa ekki verið gerðar breytingar til leiðréttingar í samræmi við þær. Hver skyldi ástæðan vera fyrir því? Hún hlýtur að vera sú að menn ætli að einsetja sér að halda því til streitu að hallinn á fjárlögum sé ekki nema 3 milljarðar og bera það svo saman við halla á fjárlögum árið sem Seðlabankinn varð fyrir hundraða milljarða tjóni á falli bankanna og segja sem svo: Sjáið hvað við höfum náð miklum árangri. Hallinn á þessu ári verður ekki nema 3 milljarðar en var 218. Það held ég að sé nýjasta talan sem menn nefna um fjárlög hrunársins, eins fráleitur og sá samanburður er.

Í þessu felst auðvitað töluverð ósvífni. Annars vegar það að miða við árin þar sem íslenskt efnahagslíf komst nánast í þrot. Allir stærstu bankarnir urðu gjaldþrota með þeim afleiðingum sem birtust í uppgjöri þess árs og hins vegar að halda því fram og telja það til marks um árangur ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili að hallinn á árinu 2013 verði ekki nema 3 milljarðar þegar menn vita og sjá svart á hvítu að það er einfaldlega rangt. Þetta sýnir okkur, því miður, að tilgangurinn með þessum fjárlögum er ekki hvað síst sá að blekkja í lok kjörtímabilsins og aðdraganda kosninga. Það hlýtur að teljast alvarlegt mál.

Til viðbótar við þessa stóru útgjaldaliði sem eru fyrirsjáanlegir liggur alveg ljóst fyrir að hallinn verður miklu meiri, svona í ljósi reynslunnar, því ýmislegt ófyrirséð mun bætast ofan á þetta. Við höfum séð á undanförnum árum, árið 2012, 2011, 2010 og 2009, að áætlanirnar stóðust aldrei. Það skeikaði 173% á fjárlögum ársins 2010 og raunveruleikanum. Það hlýtur að hafa verið a.m.k. Evrópumet ef ekki heimsmet. Því miður hefur ósköp lítið verið að marka fjárlög þessarar ríkisstjórnar.

Það sem stendur upp úr og er sameiginlegt með uppgjöri allra áranna á þessu kjörtímabili er að jafnt og þétt hafa skuldir ríkisins verið að aukast. Skuldir ríkisins við upphaf næsta kjörtímabils verða miklu, miklu meiri en þær voru eftir efnahagshrunið. Viðsnúningurinn er ekki hafinn og vaxtagreiðslurnar eru slíkar að það væri nánast hægt að reka heilbrigðiskerfið ef menn þyrftu ekki að punga út fyrir þessum himinháu vaxtagreiðslum. Vaxtagreiðslurnar hafa haldið áfram að aukast í takt við auknar skuldir ríkisins. Það liggur ljóst fyrir og fjárlög ársins 2013 staðfesta, jafnvel með öllum þeim blekkingum sem þar er að finna, að næsta ríkisstjórn mun á margan hátt standa frammi fyrir erfiðari stöðu en þessi ríkisstjórn gerði þegar hún tók við völdum.

Það hlýtur að vera okkur verulegt áhyggjuefni að þessi fjögur ár skuli ekki hafa verið nýtt betur en svo að ríkisstjórnin sem tekur við eftir fjögurra ára tímabil sem átti að vera tímabil viðsnúnings, allar áætlanir gerðu ráð fyrir því í upphafi kjörtímabilsins, skuli taka við verri stöðu ríkisins.

Það voru nefnilega heilmikil tækifæri til að láta spárnar um hinn snögga viðsnúning rætast, hvort heldur sem litið er til spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ríkisstjórnarinnar sjálfrar, ASÍ, Hagstofunnar eða annarra. Við sáum að jafnvel í Evrópu, þar sem menn hafa nú verið að ganga í gegnum evrukrísuna svokölluðu, varð strax heilmikil uppsveifla árið 2010 og að einhverju leyti árið 2011 í kjölfar efnahagskrísunnar og niðursveiflunnar. Enda hefur það nánast verið regla að eftir skarpa efnahagslega niðursveiflu í þróuðum ríkjum fylgir tiltölulega skörp uppsveifla. Sú uppsveifla varð aldrei hér vegna þess að menn nánast skipulega héldu niðri fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu í landinu þannig að störfum hefur nánast ekkert fjölgað. Það hafa nánast engin ný störf orðið til. Jú, það hefur eitthvað fækkað á atvinnuleysisskrá, en það er bara með tilfæringum og endurskilgreiningum og sérstaklega flutningi fólks úr landi.

Til viðbótar við stöðuna hvað varðar sköpun starfa horfum við fram á að fjárfesting hefur á undanförnum árum verið í sögulegu lágmarki og það er auðvitað nátengt. Það breytist ekki mikið með þessum fjárlögum. Það er reyndar búið að taka nokkra liði sérstaklega út og gefa þeim nafn, fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Fjárfestingar sem dygðu ekki til að opinber fjárfesting væri í meðallagi, jafnvel þó við tækjum þær einfaldlega með öðrum fjárfestingum eins og venjan hefur verið til þessa og litum á þetta sem eðlilega fjárfestingu ríkisins. Við erum enn í algjörri lægð hvað varðar fjárfestingu sem er undirstaða hagvaxtar til framtíðar og atvinnusköpunar.

Menn bregðast við því með sýndarmennskunni með því að setja saman svokallaða fjárfestingaráætlun, sem á reyndar að fjármagna á næsta kjörtímabili að langmestu leyti. Þessi ríkisstjórn ætlar sem sagt að lofa hinu og þessu svona rétt fyrir kosningar, en láta þá sem taka við um að fjármagna það.

Virðulegur forseti. Sú heildarmynd sem birtist okkur af þessu kjörtímabili nú þegar við skoðum síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar, og ég hef verið að lýsa hér, er svo alvarleg að hún ein og sér ætti að vera fullt tilefni til að ríkisstjórnin léti lítið fyrir sér fara í umræðum um efnahagsmál og lyti höfði þegar kemur að umræðu um þann málaflokk. En nei, í staðinn fyrir að viðurkenna staðreyndir fara menn í það að hrósa sjálfum sér hver á fætur öðrum. Þeir stjórnarliðar sem þó hafa látið hafa sig í það að ræða fjárlögin halda því fram að hér hafi náðst stórkostlegur árangur, þótt skuldir ríkisins séu miklum mun meiri en þegar ríkisstjórnin tók við. En hvað tína menn til?

Þessar atvinnuleysistölur sem ég nefndi áðan, ég þarf ekki að fara aftur yfir þær. Svo það að hagvöxtur hér sé svo miklu meiri en í öðrum Evrópulöndum. Hvernig varð þessi hagvöxtur til? Ekki með fjárfestingu, sem er í sögulegu lágmarki eins og ég nefndi, eða nýjum störfum, nýrri framleiðslu. Nei, hagvöxturinn varð til vegna þess að ríkisstjórnin í rauninni neyddi fólk til að nota séreignarsparnað sinn. Hún fékk óvæntan happdrættisvinning þegar makríllinn fór að leita inn í íslenska lögsögu. Og svo jók fall gjaldmiðilsins töluvert á útflutningstekjur, ekki hvað síst í ferðaþjónustu. Það er gjaldmiðilsins sem þessi ríkisstjórn eða a.m.k. ráðandi hluti hennar vill fyrir alla muni losna við sem allra fyrst. Ef ekki hefði verið fyrir þá sveiflu sem íslenska krónan tók á sig, með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir íslensk heimili reyndar, er alveg ljóst að atvinnuleysi hefði þróast á svipaðan hátt og í Evrópu og ólíklegt að ástandið væri miklu betra hér en t.d. á Írlandi eða í Portúgal. Það gæti vel verið um 15% atvinnuleysi. Fyrir utan það, virðulegi forseti, að ef við hefðum nú verið komin með evruna þegar efnahagshrunið varð liggur alveg ljóst fyrir að Ísland hefði einfaldlega orðið gjaldþrota. Það hefði verið sett í þá stöðu að þurfa að bjarga bönkunum eins og Írar gerðu án þess að eiga nokkra möguleika á að standa undir því.

Það sem hefur kannski einna helst fleytt ríkisstjórninni áfram á kjörtímabilinu er gjaldmiðillinn og fall hans, makríllinn og það að stjórnarandstaðan, forsetinn og auðvitað almenningur í landinu skyldu koma í veg fyrir að ríkisstjórnin skuldsetti landið langt umfram það sem það hefði staðið undir. Þetta þrennt sem hefur bjargað ríkisstjórninni eru allt hlutir sem ríkisstjórnin hefur barist gegn með öllum tiltækum ráðum á þessu kjörtímabili. Hvað á ég við með því? Ég ætla ekki að fara að rekja Icesave-söguna eina ferðina enn, en hitt tvennt, gjaldmiðillinn og makríllinn, eru hvort tveggja hlutir sem við höfum engin yfirráð yfir og ekkert að segja um að ráði ef ríkisstjórninni hefði orðið að því markmiði sínu að ganga í Evrópusambandið á kjörtímabilinu. Nú er reyndar ljóst að af því verður ekki. Því þurfum við að velta fyrir okkur hvað tekur við.

Hvernig vinnum við best úr þeirri stöðu sem fjárlög ársins 2013 lýsa? Þar eru góðu fréttirnar þær að ef mönnum tækist að koma á eðlilegum sjálfbærum hagvexti, aukinni fjárfestingu og verðmætasköpun væri mjög hratt hægt að snúa þróuninni til betri vegar á Íslandi. Í þessum vandræðagangi ríkisstjórnarinnar sjáum við nefnilega glitta í risastór tækifæri. Við sjáum af öllum mistökunum hvað hlutirnir gætu verið miklu betri ef menn tækju skynsamlegar ákvarðanir.

Stjórnarliðar tala mikið um þá áherslubreytingu sem verður með þessum fjárlögum með fjárfestingu í svokölluðum skapandi greinum. Þá komum við reyndar aftur að því sem ég nefndi í upphafi, það er eitthvað sem næsta ríkisstjórn á að fjármagna, en gott og vel. Þetta er áherslan hjá ríkisstjórninni, að til framtíðar muni stefnumörkun með áherslu á skapandi greinar skapa heilmikil verðmæti.

Hvað er nýtt í því? Það hefur mjög lengi verið stefna íslenskra stjórnvalda að efla skapandi greinar. Hver er ástæðan fyrir því að þær hafa ekki eflst meira en raun ber vitni á þessu kjörtímabili? Hver er ástæðan fyrir því að stjórnarliðar koma hér fram og kynna síðustu fjárlög sín á þann hátt að með sérstakri innspýtingu í þessar greinar verði hægt að koma þeim af stað? Ástæðan fyrir því að þær hafa ekki farið af stað sjálfar, eins og tækifæri voru til, er sú að stefna ríkisstjórnarinnar að öllu öðru leyti allt þetta kjörtímabil hefur verið til þess fallin að halda aftur af fjárfestingu. Til dæmis og ekki hvað síst í nýsköpunargreinum, greinum sem reiða sig á stöðugleika, reiða sig á að menn geti gert lágmarksáætlanir um framtíðina. Næg er áhættan af því að ráðast í stofnun nýsköpunarfyrirtækis, en menn verða a.m.k. að geta séð fyrir hvernig skattkerfið muni þróast og hvaða möguleikar verði á vexti í hagkerfinu. Þegar menn sitja uppi með stjórnvöld sem auka óvissuna á hverjum einasta degi þá ráðast menn ekki í stofnun nýsköpunarfyrirtækja eða áhættusaman rekstur. Þá fara menn eins varlega og þeir mögulega geta í sínum rekstri. Þá skiptir engu máli þótt menn komi í lok kjörtímabils og ætli að setja einhverja tugi milljóna í styrki hingað og aðra tugi þangað, ef menn hafa allt kjörtímabilið rekið stefnu sem heldur aftur af fjárfestingu.

Það á ekki bara við um þessar skapandi greinar sem hafa verið stjórnarliðum hugleiknar í umræðunni, það á auðvitað líka við um undirstöðuatvinnugreinar íslensks samfélags. Þar hefur verið gengið ótrúlega langt í að skapa og viðhalda óvissunni. Jafnvel í grunnatvinnuvegi Íslendinga, sjávarútvegi, sem hefði getað haft þau áhrif á kjörtímabilinu að draga okkur út úr kreppunni, hefur allt verið sett í uppnám frá nánast fyrsta degi og uppnáminu viðhaldið. En þegar aðeins fáeinir mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu heyrum við fréttir af því að hugsanlega muni ríkisstjórnin koma með nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða. Hugsanlega, ef menn koma sér saman um það innan stjórnarliðsins, gerist það á næsta ári.

Enn eru menn með hugmyndir um að umbylta undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar nokkrum vikum fyrir kosningar. Er ekki nóg komið af óvissu sem birtist ekki hvað síst í þessum fjárlögum og þeim skorti á fjárfestingu sem þar er svo áberandi?

Talandi um samspil annars vegar nýsköpunargreinanna og hins vegar undirstöðuatvinnuveganna þá virðist það vera eitthvað sem menn gera sér enga grein fyrir í stjórnarliðinu. Það er litið á þetta sem nánast andstæður, þannig að það þurfi að vega að undirstöðuatvinnugreinunum til þess að byggja upp nýsköpun. Þannig voru tillögur um veiðigjöld a.m.k. kynntar. Það þyrfti að ganga þetta langt gegn sjávarútveginum til þess að geta sett peninga í nýsköpun.

Langflest fyrirtæki sem hafa náð árangri í nýsköpun, hvort heldur sem er á Íslandi eða í nágrannalöndunum, hafa byggt þann árangur á því að til staðar hafa verið sterkar undirstöðuatvinnugreinar. Ekki hvað síst á þetta auðvitað um sjávarútveginn sem hefur myndað undirstöðu fyrir vöruþróun og framþróun á hinum fjölbreytilegustu sviðum.

Fyrir ekki svo löngu síðan gerði sjávarklasinn svokallaði, þ.e. samtök fyrirtækja sem starfa í greinum tengdum sjávarútvegi, spá um hvernig greinin hefði getað þróast og mundi þróast til framtíðar ef hún byggi við sömu aðstæður og í Noregi, ef stjórnvöld ynnu að því að skapa stöðugleika í staðinn fyrir óvissu. Niðurstaðan var sú að á undanförnum árum hefðu getað orðið til mörg þúsund störf, ekki hvað síst í nýsköpun tengdri sjávarútveginum. Á næstu árum, fyrir árið 2020, gætu orðið til sjö þúsund störf til viðbótar, ef greinin fengi að vera í friði og fengi sama starfsöryggi og í Noregi. Í staðinn er óvissunni viðhaldið og svo í lok kjörtímabils er hent inn einhverjum milljónum til þess að styrkja nýsköpunarfyrirtæki.

Ástæðan fyrir því að ég er að rekja þetta hér í lok umræðu um fjárlögin er sú að þetta er svo grátlegt. Þetta verður að vera okkur til viðvörunar á næsta kjörtímabili. Á næsta kjörtímabili verðum við að marka stefnu sem er til þess fallin að skapa stöðugleika og leyfa atvinnugreinunum að þróast. Það getur þurft styrki í einhverjum tilvikum, en það hefur ekkert að segja miðað við að skapa þær aðstæður fyrir atvinnulífið að menn þori að ráðast í framkvæmdir, þori að ráða fólk til vinnu, þori að fjárfesta og lifi ekki í stöðugum ótta við hverju stjórnvöld taki upp á næst. Einungis þannig verða fjárlög ársins 2014 betri en þau sem við horfum upp á núna og undanfarin ár.

Það sem við erum að ræða hér, fjárlög ársins 2013, er afleiðing þeirrar miklu óvissu sem ég hef rakið hér og hún birtist líka í fjárlögunum sjálfum. Annars vegar vegna þess að menn sleppa því einfaldlega að taka með í reikninginn fyrirsjáanlega útgjaldaliði, en líka vegna þess hversu illa fjárlögin eru unnin og undirbúin af hálfu stjórnarmeirihlutans. Nýjasta dæmið hefur verið til umræðu í dag og í kvöld, það að ríkisstjórnin ætlaði óvart, að eigin sögn a.m.k., að skattleggja bleiur, tannþráð, dömubindi og annað slíkt sem lækningatæki. Þetta virkar kannski fyndið, en því miður er þetta bara lýsandi dæmi um þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við gerð fjárlaga á þessu kjörtímabili. Hvað eftir annað gera menn alveg ótrúleg mistök við vinnu fjárlaganna. Afleiðingin er sú sem ég lýsti hér áðan, fjárlög standast aldrei og það munar ekki bara nokkrum prósentum, það munar jafnvel 173% á hallanum sem áætlaður er í fjárlögum og því sem raunin er, eins og árið 2010.

Þannig að þegar menn koma hér og halda því fram að hallinn á þessum fjárlögum verði ekki nema 3 milljarðar, fara þeir einfaldlega með rangt mál.

Að lokum vil ég rifja upp atriði sem ég kom reyndar aðeins inn á við 2. umr. fjárlaga en tel mjög mikilvægt að verði haldið til haga. Það er að menn breyti vinnu við fjárlögin á þann hátt að farið verði að líta meira til langtímaáhrifa. Þannig megi taka skynsamlegri ákvarðanir. Við höfum nefnilega hvað eftir annað séð tillögur um niðurskurð sem veldur mun meira tjóni til lengri tíma litið, en á sama tíma séð tillögur um útgjöld sem skapa afskaplega litlar tekjur. Það dæmi sem mér finnst mest lýsandi fyrir þann skort á langtímahugsun, sem hefur reyndar sérstaklega einkennt þessa ríkisstjórn, en er kannski ekkert alveg nýtt, eru áformin um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þar reiknuðu menn með hreinum sparnaði. Af hverri einustu uppsögn, af hverri einustu lokun, var reiknað með hreinum sparnaði sem því næmi. Segjum upp þremur hjúkrunarfræðingum á einum stað. Hvað er það mikill sparnaður? Hann er jafn mikill og nemur launum þessara þriggja hjúkrunarfræðinga. Flestir sjá í hendi sér hversu röng þessi nálgun er. Það er ekki gert ráð fyrir því að það þurfi að sinna sjúklingunum annars staðar, jafnvel að það felist aukinn kostnaður í því að flytja sjúklingana langan veg svo þeir fái notið aðhlynningar annars staðar. Það er ekki reiknað með kostnaði af atvinnuleysisbótum til fólksins sem er sagt upp. Menn líta ekki á heildaráhrifin og ekki á langtímaáhrifin.

Þessu verður breytt á næsta kjörtímabili af ríkisstjórn sem einsetur sér vonandi að skapa festu og stöðugleika svo að menn þori að byggja upp og fjárfesta og ráða fólk. Ríkisstjórn sem tekur ákvarðanir út frá heildarmyndinni og með langtímaáhrif að leiðarljósi.

Þó að þetta hafi nú ekki gengið upp undanfarin fjögur ár eins og staðfest er endanlega með þessu síðasta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þá er hægt að gera hlutina svo miklu betur. Ef menn vinna af skynsemi og nýta tækifærin má snúa þróuninni hratt við, læra af þessari skelfilegu reynslu undanfarinna ára og gera fjárlög ársins 2014 miklu, miklu betur heldur en þau sem við höfum horft upp á undanfarin ár.