141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Fyrir fáeinum dögum var utanríkisráðherra okkar á ríkjaráðstefnu í Brussel að ræða Evrópusambandsmálin. Eftir þann fund birtist okkur einu sinni enn hversu mjög ríkisstjórnin er klofin í afstöðu sinni til nokkurra grundvallarmála, sérstaklega þess hvernig við losnum við gjaldeyrishöftin. Gjaldeyrishöftin eru eitt af stórum viðfangsefnum okkar á sviði efnahagsmála og það skiptir verulega miklu hvernig menn ætla að nálgast lausn á þeim vanda.

Hæstv. utanríkisráðherra kom með þau skilaboð að Evrópusambandið mundi með einhverjum hætti aðstoða okkur, hjálpa okkur við að losna undan snjóhengjunni. Það stendur upp á ríkisstjórnina og ég vil bera það undir hæstv. forsætisráðherra að svara því hvernig þetta eigi nákvæmlega að gerast. Er verið að tala um að Evrópusambandið ætli að lána fjármuni til að við getum greitt kröfuhöfum út? Er verið að tala um faglega aðstoð, tæknilega aðstoð? Hvers konar aðstoð er verið að tala um? Hvers vegna og hvernig ættu viðræður okkar við Evrópusambandið eða möguleg aðild að Evrópusambandinu í framtíðinni að létta af okkur þessum vanda eða leysa hann þannig að hann gufi bara upp fyrir framan augun á okkur? Er ekki dálítið langsótt að halda því fram að einhver utan Íslands muni leysa vandann? Er ekki dálítið langsótt að halda því fram að Evrópusambandsviðræður eða -aðild muni gera vandann að engu?

Það skortir algerlega að útskýrt sé fyrir þinginu og fyrir þjóðinni hvernig þetta ætti mögulega að geta gerst þannig að menn komist til botns í því hvort þetta eru nokkuð annað en orðin tóm. Ég kalla einnig eftir því frá hæstv. forsætisráðherra að það komi skýr lína frá ríkisstjórninni um það hvort ríkisstjórnin sé á þeirri leið (Forseti hringir.) að reyna að leysa vandann með inngöngu í Evrópusambandið eða öðrum hætti vegna þess að menn tala hver í sína áttina.