141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil vísa því á bug að ég hafi verið að ræða óskylt efni í svari mínu áðan. Í fyrirspurninni var bæði verið að tala um Evrópusambandið og afnám hafta og ég taldi eðlilegt að vísa í það bréf sem kom í morgun sem fjallar einmitt um afnám hafta og aðkomu allra flokka að því máli. Í nefndinni sem hv. þingmaður vísar til eiga sæti fulltrúar allra flokka og líka Framsóknarflokksins. Í bréfinu er almennt farið yfir stöðu málsins og tekið fram að það sé rétt að bíða átekta og meta stöðuna ítarlega áður en nauðasamningum er veitt brautargengi. Ég er sammála því vegna þess að við verðum að fara mjög varlega í því efni. Það má ekki losa þessa nauðasamninga fyrr en menn eru algerlega klárir á því að það stefni ekki stöðugleikanum í hættu eða hafi alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. Á þetta hefur Seðlabankinn lagt áherslu. Ég tel að ég sé ekki ósammála neinu sem kemur fram í þessu bréfi. Þvert á móti tel ég mikilvægt að við ræðum báða þessa hluti; hvernig eigi að fara í áætlanir um afnám gjaldeyrishaftanna og hvernig við eigum að vinna okkur út úr nauðasamningum. Það hefur einmitt verið kallað eftir því á þinginu að það sé ekki bara Seðlabankinn sem komi að þessu máli heldur líka fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Þetta bréf er leiðarljós í því að allir eigi að koma að málinu.

Varðandi skuldir hins opinbera eru þær auðvitað miklar, ég dreg ekkert úr því, en við skulum muna að ríkið skuldar nánast ekki neitt í erlendum skuldum og hrein staða þjóðarbúsins við útlönd batnaði um 350 milljónir á þessu ári. Við erum sem betur fer að saxa á þær skuldir sem við erum með í farteskinu frá hruninu.