141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að heyra að hæstv. forsætisráðherra skuli ætla að taka ábendingar sem birtast í bréfinu alvarlega. Mér hefur fundist vanta býsna mikið upp á að brugðist yrði við ábendingum þingmanna um mikilvægi þess að haft yrði eftirlit með samningum við gömlu bankanna. Seðlabankinn hefur ekki látið neinn um þær viðræður eða ákvarðanir tengdar þeim viðræðum svo að vonandi tekur hæstv. forsætisráðherra þetta föstum tökum.

En hvað með spurninguna um stöðu þjóðarbúsins og hún liggi ekki nægilega vel fyrir? Er hæstv. forsætisráðherra sammála því að við vitum ekki almennilega hver staða þjóðarbúsins er? Hlýtur ekki að vera algert forgangsatriði að komast að því hver staða íslenska þjóðarbúsins raunverulega er til að geta tekið ákvarðanir í samræmi við það?