141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

tillaga um frestun viðræðna við ESB.

[10:47]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er ég ekki til svara fyrir störf utanríkismálanefndar. Ég hygg að hv. þingmaður hafi sjálfur betri aðgang að upplýsingum um það sem þar fer fram en ég. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég hef sagt opinberlega um málið, m.a. í svari við óundirbúinni fyrirspurn fyrir nokkrum dögum. Ég tel að eftir ríkjaráðstefnuna síðast á þessu ári hafi staðan skýrst og að góður tími sé til að fara yfir hvar málið er statt varðandi þær tafir sem á því hafa orðið og þau deilumál sem uppi eru sem og að ræða þá framhaldið og hvernig haldið verður á málinu. Það er stærra mál en svo að ég ætli mér að fara að svara efnislega fyrir það í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Það ræðum við í þingflokki okkar og við samstarfsflokk okkar. Það er málefni sem varðar stjórnmálin öll og þarf að taka á því í samræmi við stærð þess og mikilvægi fyrir Ísland að hönduglega sé á því haldið, hvernig sem það svo sem fer.

Mér finnst það áhugavert út af fyrir sig stjórnmálalega séð að Sjálfstæðisflokkurinn virðist kjósa þá leið að móta afstöðu sína í þessu risastóra, utanríkispólitíska máli eða að minnsta kosti að formgera afstöðu sína í samstarfi við hv. þm. Jón Bjarnason í utanríkismálanefnd, sem báðir aðilar telja sér að sjálfsögðu til virðisauka, geri ég ráð fyrir úr því að svo er. Ég tel að þetta sé ekki mál sem menn eigi að reyna að veiða hverjir aðra út í svör um í óundirbúnum fyrirspurnatíma af þessu tagi og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er reyndari en svo að hann viti ekki í raun það er ekki þannig sem menn taka afdrifaríkar ákvarðanir um stórmál af þessu tagi.