141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

ýsugengd við Norðvesturland.

[10:58]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hafa þeir áhyggjur af því þegar misvægi verður af þessu tagi milli tegunda eins og þorsks og ýsu. Fyrir nokkrum árum síðan sneri vandamálið alveg öfugt. Þá var þorskkvótinn svo naumur og hafði verið skorinn svo niður að menn voru í vandræðum með að fá ekki of mikinn þorsk í tilraunum sínum til að veiða þá aðrar tegundir, en nú hefur það snúist við varðandi ýsuna.

Ég held að menn verði að hugsa sig vel um áður en þeir fara út á þá braut að ýta til hliðar þeirri vísindalegu ráðgjöf sem við byggjum ákvarðanir okkar almennt á í þessum efnum því að þar er mikið í húfi, m.a. trúverðugleiki okkar sjálfra. Við getum ekki bara valið okkur einstakar tegundir og einstaka aðstæður og sagt: Í dag á þetta ekki að gilda en endranær á það að gilda, þannig að það þarf að vanda allar slíkar ákvarðanir. Vísindalega og líffræðilega eru alveg tiltækar þessar skýringar sem ég fór yfir áðan, þ.e. þegar nokkurra ára tímabil kemur með mjög lélega nýliðun, (Forseti hringir.) þar sem sterkur fullorðinn stofn er til staðar geta veiðarnar og aflabrögðin verið ágæt í einhver ár en fram undan er mjög erfiður tími. Þá er auðvitað varhugavert fyrir öryggismörk stofnsins að ganga of nálægt þeim hrygningarstofni sem þó enn er til staðar.