141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

hagvöxtur.

[10:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Nú þegar kjörtímabilið er senn á enda er vert að gera upp þann meinta árangur sem ríkisstjórnin telur sig hafa náð í efnahagsmálum. Eitt af því sem hún telur sér til tekna er að hér sé hagvöxtur jafnvel meiri en gengur og gerist í Evrópu og það sé til marks um að ríkisstjórninni hafi gengið ágætlega.

Nú held ég að flestir séu sammála um það að ef hagvöxtur hefði ekki mælst meiri en gengur og gerist í Evrópu hefði það í sjálfu sér verið stórslys. Ég tel miklu nær að bera árangur ríkisstjórnarinnar saman við þau markmið sem hún sjálf setti sér í upphafi kjörtímabilsins. Þau komu nefnilega fram í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 og þar segir, með leyfi forseta:

„Í áætlun þeirri, sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum. Þessi markmið eru í samræmi við og byggð á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum, og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi.“

Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birt var 12. maí 2009 var gert ráð fyrir um 4,4% hagvexti á árinu 2011 og 3,1% hagvexti á árinu 2012. Nú nær hagvöxturinn á Íslandi rétt um 2,2–2,5% á þessu ári sem er langt undir þeim markmiðum sem ríkisstjórnin sjálf setti sér ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hvernig hún sjái fyrir sér að hægt verði að auka hagvöxtinn á komandi árum vegna þess að lítið sem ekkert í því fjárlagafrumvarpi sem kemur til atkvæða hér á eftir bendir til að svo verði.