141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun voru afgreidd til 2. umr. nefndarálit og breytingartillögur sem varða ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það frumvarp verður á dagskrá síðar í dag og mun þá fara fram rökstuðningur, efnisleg umræða og pólitísk umræða um þau efni. Afgreiðsla á tillögunum hefur hins vegar lítils háttar áhrif á útkomu fjárlaganna og þess vegna geri ég stuttlega grein fyrir því í hverju þær felast.

Þær lúta annars vegar að breytingu á skattlagningu bílaleigna, sem hefur engin áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga og kallar ekki á það að fresta afgreiðslu fjárlaga þess vegna. Er ekki gerð breytingartillaga um það enda færast þær tekjur bara til á milli liða.

Sú breyting sem efnahags- og viðskiptanefnd gerir sem varðar fjárhæðir í fjárlagafrumvarpinu er svo hljóðandi:

Hætt er við að hluta að fella niður afdráttarskatt af vöxtum sem greiddir eru úr landi. Við það batnar hagur ríkissjóðs um 1.600 millj. kr. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að því fé sé ráðstafað með þeim hætti að horfið sé frá hækkun á bifreiðagjöldum, sem átti að nema 300 millj. kr. Horfið verði frá hækkun á vörugjaldi á bensín sem nema átti 218 millj. kr. Horfið verði frá hækkun á sérstöku bensíngjaldi 348 millj. kr. Horfið verði frá hækkun á olíugjaldi 284 millj. kr. Horfið verði frá hækkunum á bjór og léttvín, 250 millj. kr. og horfið verði frá hækkun á útvarpsgjaldi, 190 millj. kr.

Breytingarnar draga úr neikvæðum verðlagsáhrifum fjárlagafrumvarpsins um liðlega 0,1% og þar með hækka verðtryggðar skuldir heimilanna um hátt í 2 milljörðum kr. minna en annars hefði orðið en heildarniðurstaðan er jákvæð um 10 millj. kr. fyrir ríkissjóð. Alls eru þetta 1.590 millj. kr. í lækkanir í því að fallið er frá fyrirhuguðum hækkunum á sköttum. Þær hækkanir sem eftir standa eru hækkanir á sterkt áfengi og á tóbak.

Eins og ég greindi frá í upphafi mun efnisleg umræða, rökstuðningur og pólitísk umræða fara fram um tillögurnar, eðli málsins samkvæmt, við 2. umr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en ég taldi skylt að gerð væri efnislega grein fyrir því í hverju breytingartillögurnar fælust sem hér var verið að samþykkja afbrigði fyrir.