141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að afgreiða síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Í fjórða sinn er forgangsröðun hennar röng í ríkisfjármálum. Forgangsraðað er í þágu fjármagnseigenda með því að setja ríflega 80 milljarða í vaxtagjöld til þeirra meðan skorið er niður í heilbrigðismálum og 300 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp.

Við erum á móti slíkum fjárlögum. Við teljum þetta ranga nálgun og við teljum að það sé orðið löngu tímabært að viðurkenna að skuldastaða ríkissjóðs er einfaldlega ekki sjálfbær.

Hér er líka verið að auka við flækjustigið í virðisaukaskattsstiginu með því að láta undan kröfu hagsmunaaðila um að þeir fái sérniðurgreitt virðisaukaskattsstig í ferðaþjónustu. Skattkerfi ríkisins er morandi í slíkum atriðum og það væri óskandi að stjórnvöld hefðu kjark til að standa á móti slíku.

Hér sjáum við líka þess merki að safnliðirnir frægu sem mikil vinna var sett í að koma út úr fjárlögum eru komnir upp á dekk á ný. Það er ábyrgðarleysi af hálfu fjárlaganefndar og meiri hlutans þar að fara í þá vegferð eftir alla þá vinnu sem var lögð í að útrýma safnliðum.