141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú hefur umræða um fjárlagafrumvarpið sem við erum að fara að greiða atkvæði um í dag staðið yfir í meira og minna í 100 daga. Það eru um 100 dagar síðan fjárlagafrumvarpið var lagt fram og mér er til efs að nokkuð frumvarp hafi áður fengið jafnlanga og ítarlega umræðu í þinginu og í þingnefndum. (Gripið fram í: Icesave.)

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hvatti okkur til að draga upp heildarmyndina af aðgerðum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu og við skulum gera það. Við skulum bera hana saman við þá mynd sem blasti við okkur í ársbyrjun 2009. Ísland þurfti að lúta hryðjuverkalögum erlendra þjóða, var einangrað efnahagslega á alþjóðavettvangi (Gripið fram í.) þar sem atvinnuleysi stefndi í tugaprósentatölu, með verðbólgu í 20%, með stýrivexti í 20%, (VigH: … Icesave ofan á.) með fyrirtæki þúsundum saman á leið í gjaldþrot, með skuldir heimilanna í hæstu hæðum. Vill einhver skipta á þessari mynd í dag? (Gripið fram í.) Ætlar hv. þm. Bjarni Benediktsson að bjóða upp á skipti í kosningunum í vor á þeirri mynd sem hann og Sjálfstæðisflokkurinn rétti okkur vorið 2009 (Forseti hringir.) og þeirri sem við erum að draga upp af samfélaginu í dag með því fjárlagafrumvarpi sem hér er til atkvæðagreiðslu? (HöskÞ: Var ekki Samfylkingin í ríkisstjórn?) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)