141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Því er haldið fram með ágætum rökum að sjaldan hafi jafnvönduð og ítarleg vinna átt sér stað við fjárlagagerð íslenska ríkisins. Þar kemur margt til, m.a. að frumvarpið kom þremur vikum fyrr inn til þingsins en áður hefur tíðkast undanfarna áratugi, þannig að mun rýmri tími gafst til að fara dýpra og ítarlegar ofan í einstök mál. Þá spilar líka stóra rullu að safnliðastarfi hefur verið útvistað til ráðuneyta, fagráðuneyta og menningarsjóða.

Allar eiga breytingartillögurnar sem við greiðum atkvæði um hér í dag það sameiginlegt að vera brýnar viðbætur við fjárfestingar í menntun, menningu, velferð, skapandi greinum, öryggis- og löggæslumálum. Þetta eru brýnar og mikilvægar fjárfestingar í innviðum samfélagsins sem við greiðum atkvæði um í dag og það er sérstaklega ánægjulegt að geta bætt í einstaka liði; 440 millj. kr. til framhaldsskóla, 220 millj. kr. til háskóla, 200 millj. kr. í óskiptan pott til löggæslumála og svo mætti lengi áfram telja.