141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:56]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þau fjárlög sem hér eru til umfjöllunar sýna ótvíræðan og mikilsverðan árangur í ríkisfjármálum frá á að giska gjaldþroti nýfrjálshyggjunnar til sjálfbærni jafnaðarmennskunnar. Hér í þessum stól hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar staðið gáttaðir yfir því að það hafi þurft að skera niður, yfir því að það hafi þurft að hagræða. Hvað hafa þeir lagt til málanna? Ætluðu þeir að hætta við auknar tekjur? Ætluðu þeir að hætta við að hagræða? Ætluðu þeir yfirleitt að gera eitthvað til að reisa samfélagið við? Tillögur þeirra hafa ekki verið uppbyggilegar. Hér höfum við verið að taka til svo um munar og var ekki vanþörf á eftir ein mestu stjórnmálamistök í sögu íslenskrar þjóðar. (Gripið fram í: Samfylkingin.)