141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:59]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við tökum hér til afgreiðslu síðustu fjárlög ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessu kjörtímabili. Þegar ríkisstjórnin tók við var fjárlagahallinn 216 milljarðar kr. Við afgreiðum þessi fjárlög með halla upp á rúma 3,6 milljarða. Þetta hefur ríkisstjórnin gert með því að skera niður útgjöld ríkisins. Það hefur verið sársaukafullt og erfitt en það þurftum við að gera til að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum og það mun takast á allra næstu missirum.

Þetta hefur einnig verið gert með því að afla tekna með skattkerfisbreytingum sem fært hafa auknar byrðar á þá sem hæstar hafa tekjurnar en lækkað skattbyrði lág- og meðaltekjufólk. Það er aðferð jafnaðarmanna, það er hin hárrétta leið, sérstaklega þegar menn takast á við alvarlegt hrun. Á sama tíma hefur tekist að snúa samdrætti í stöðugan hagvöxt, atvinnuleysi hefur minnkað um nærfellt helming, verðbólga og vextir snarlækkað og fjárfestingar eru að glæðast. Við þurfum áfram að sýna aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum en það er ótvírætt að um mikinn viðsnúning ríkisfjármála er að ræða sem gerir okkur kleift að byggja upp aftur (Forseti hringir.) velferðarþjónustuna og menntakerfið í landinu.