141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Síðustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar staðfesta að allt þetta kjörtímabil hefur ríkið verið rekið með halla. Stjórnarliðar reyna reyndar enn að halda því fram að þeir hafi náð ótrúlegum árangri með því að ná hallanum niður úr 216 milljörðum í aðeins 3 milljarða núna og leyfa sér þá ósvífni að bera saman annars vegar það sem þeir kalla gjaldþrot Seðlabankans vegna hruns íslenska fjármálakerfisins og svo fjárlög ársins í ár sem eru fölsun. Við vitum að hallinn verður ekki 3 milljarðar, það er búið að sýna fram á það. Því hefur ekki einu sinni verið mótmælt, ekki hefur verið reynt að mótmæla því að hallinn verður meiri. En samt leyfa menn sér að koma hingað upp við upphaf atkvæðagreiðslu og halda því fram að hallinn verði ekki nema 3 milljarðar. Þetta eru hreinar og klárar blekkingar og þessi fjárlög einkennast einmitt af blekkingum, þau eru tilraun til að blekkja Íslendinga á lokaspretti þessarar ríkisstjórnar.