141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér fannst ekki annað hægt en koma hér aftur upp þegar ég heyrði hæstv. atvinnuvegaráðherra tala um veruleikafirringu. Hæstv. atvinnuvegaráðherra, áður fjármálaráðherra, hefur á þessu kjörtímabili hvað eftir annað sýnt ótrúlega veruleikafirringu, ekki hvað síst í fjárlögunum sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram og hafa aldrei staðist. Nú kemur hæstv. ráðherra hingað upp og segir eina ferðina enn að ótrúlegur árangur hafi náðst því hallinn á þessu ári verði ekki nema 3 milljarðar, þó að fyrir liggi að hann verður a.m.k. tíu ef ekki tuttugu sinnum það. Engu að síður leyfir hæstv. ráðherra sér enn eina ferðina að fullyrða eitthvað sem liggur fyrir að er hreinlega rangt.

Staðreyndin er sú að nú í lok þessa kjörtímabils eru skuldir ríkisins miklu meiri en þær voru í upphafi kjörtímabilsins. Næsta ríkisstjórn mun því þurfa að takast á við miklu meiri skuldir ríkisins en þessi ríkisstjórn stóð frammi fyrir. Hér voru ótrúleg tækifæri (Forseti hringir.) til að ná niður skuldum ríkisins, ná upp fjárfestingu, koma til móts við heimilin. Þau tækifæri voru ekki nýtt.