141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en að blanda sér í umræðuna um veruleikafirringu. Ég vil rifja upp fyrir hv. þingmönnum sem hafa gleymt því að ef menn skella skuld á síðustu ríkisstjórn þá hét hún, í þessum þingsal og úti í þjóðfélaginu, ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins, hvorki meira né minna. Hvenær komu varnarorð Samfylkingarinnar við bankahrunið fram í þeirri ríkisstjórn? Eða frá hv. þingmönnum Vinstri grænna? Voru það þeir sem vildu greiða niður skuldir ríkissjóðs sem var gert og gerði að verkum að þeir gátu tekið á þessum málum? Nei.

Hér koma menn og halda því fram í fullri alvöru að við séum að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Sömu aðilar og sögðu það 2010 og 2011, en hversu mikið meiri varð hallinn þá? 1 milljarði meiri? 2 milljörðum, 3, 100? (Forseti hringir.) Hann varð 100 milljörðum meiri. Við vonum að ekki verði alveg sama staða uppi núna en svo mikið er víst að um veruleikafirringu er (Forseti hringir.) að ræða þegar menn tala um hallalaus fjárlög.