141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er breytingartillagan sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd kom með hingað nokkrum mínútum fyrir þessa atkvæðagreiðslu og það eru fáránleg vinnubrögð eins og fram kom áðan. Hér er verið að draga 1.600 millj. upp úr hatti með einhverjum bellibrögðum sem eru algerlega óútfærð, óútskýrð og ríkisstjórnin hefur áður verið rekin til baka með áform um þessa afdráttarskatta.

Það sem er á ferðinni er sama taktíkin og alltaf. Yfirgengilegum skattahækkunum er dembt yfir landsmenn og svo á síðari stigum er hrokkið til baka, komið með einhverja mildari útgáfu og allir eiga að vera ánægðir. Þetta er ekki boðlegt. Þetta er uppgjöf ríkisstjórnarinnar, uppgjöf á því fjárlagafrumvarpi sem hv. þm. Oddný Harðardóttir lagði fram í haust. Það er verið að reyna að sópa einhverjum jólagjöfum út í andrúmsloftið rétt fyrir lokaafgreiðslu og það gengur ekki upp.