141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það sem við þurfum í umræðu um fjárlög, skatta, gjöld á heimilin og atvinnustarfsemina er ekki sá hringlandaháttur sem hefur einkennt hvert einasta fjárlagaár og umræðu um fjárlög á þessu kjörtímabili. Það er náttúrlega farin sú leið að boða gríðarlega miklar hækkanir, svo er sest niður með hagsmunaaðilum og síðan dregið í land við 3. umr. Þá er boðað að menn séu að draga úr álögum en niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin er ekki að lækka álögur á alla þá liði sem hv. formaður nefndarinnar nefndi hér heldur hefur hún þegar upp er staðið á þessu kjörtímabili hækkað gjöld á bensíni, hækkað sérstakt vörugjald á bensíni, olíugjald, áfengisgjald, bifreiðagjald og öll hin gjöldin. Það er nettóniðurstaðan.